Innlent

Segir Vestfirðinga ná vopnum sínum á ný

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Daníel Jakobsson, bæjarstjóri á Ísafirði
Daníel Jakobsson, bæjarstjóri á Ísafirði
„Þeir síðustu verða fyrstir,“ segir Guðmundur Óli Tryggvason hjá Fasteignasölu Vestfjarða, en fasteignaverð hefur hvergi hækkað jafn mikið frá hruni en þar, eða 24 prósent. Hann segir að Vestfirðir hafi sífellt rekið lestina í þessum efnum fyrir hrun og því eigi þeir þessa hækkun inni. Hann segir að Vestfirðingar búi þannig vel að því að hafa ekki farið offari líkt og víða gerðist fyrir hrun.

Hann segir að nú skorti leiguhúsnæði á Ísafirði og fjölbreytnin mætti vera meiri hvað varðar úrval á fasteignum til sölu. „Ég finn þetta á eigin skinni,“ segir Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. „Ég hefði átt að kaupa strax þegar ég kom hingað fyrir þremur árum, þetta er orðið mun erfiðara núna,“ bætir hann við.

Hann segir margt geta útskýrt aukna eftirsókn í húsnæði fyrir vestan. „Staðan í atvinnumálum er með ágætu móti, það geta allir fengið vinnu sem vilja. Til dæmis er verið að auglýsa þrjú hálaunastörf hjá bænum. Spítalinn hefur verið að ráða fólk, það er verið að auglýsa eftir fólki á Þróunarsetrinu og svo hefur Innheimtustofnun verið að leita eftir fólki. Svo er mikil eftirspurn eftir verkafólki. Það má segja að við séum að ná vopnum okkar á ný.“

Það er líka nóg um að vera. Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili eru þegar hafnar, unnið er að gerð snjóflóðavarnar, uppbygging hefur fylgt úthafsrækjuveiðum sem gefin var frjáls fyrir þremur árum og ferðaiðnaði hefur vaxið fiskur um hrygg. Til að mynda tók nýtt hótel til starfa nú í sumarbyrjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×