Innlent

Veldur banvænum sjúkdómi

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Talsmenn H&M vísa því á bug að þeir skipti við verksmiðju þar sem gallabuxur eru sandblásnar.
Talsmenn H&M vísa því á bug að þeir skipti við verksmiðju þar sem gallabuxur eru sandblásnar.
 Í nýrri skýrslu, Breathless for Blue Jeans, sem unnin var á vegum nokkurra baráttusamtaka, segir að verslanakeðjan H&M skipti enn við kínverska verksmiðju þar sem gallabuxur eru sandblásnar með lífshættulegri aðferð.

Á fréttavef norska ríkisútvarpsins segir að H&M hafi árið 2010 samþykkt ásamt ýmsum öðrum fataframleiðendum, eins og til dæmis Levi Strauss & Co., Bestseller, Armani og Benetto, að banna sandblástur sem getur valdið banvænum lungnasjúkdómi hjá starfsmönnum verksmiðjanna.

Bannið var sett á eftir að 52 tyrkneskir starfsmenn höfðu látist af völdum sjúkdómsins. Vitað er að 1.200 greindust með sjúkdóminn.

Í kjölfar bannsins var framleiðslan hins vegar flutt til Bangladesh, Indlands, Pakistan og Kína. Helmingur framleiðslu allra gallabuxna fer fram í Guadong Kína. Stjórn fyrirtækisins Yida, sem framleiðir gallabuxur fyrir H&M og Levi"s, segir að sandblæstri hafi verið hætt 2010. Starfsmenn fyrirtækisins sögðu hins vegar í viðtölum í nóvember síðastliðnum að aðferðinni væri enn beitt. Talsmenn H&M segjast ekki skipta við verksmiðjur þar sem fatnaður er sandblásinn.

Í skýrslunni kemur fram að erfitt sé fyrir verslanakeðjurnar að afhjúpa sandblástur þar sem bannið hafi leitt til þess að honum sé leynt meira en áður. Margar verksmiðjur láti til dæmis undirverktaka sjá um sandblásturinn.

Að skýrslunni standa samtökin Clean Clothes Campaign, IHLO og War on Want.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×