Innlent

Morðrannsóknin á lokametrunum

Stígur Helgason skrifar
Karl Jónsson fannst látinn á svölum íbúðar sinnar og svo virtist sem honum hefði verið ráðinn bani með stórum hníf.
Karl Jónsson fannst látinn á svölum íbúðar sinnar og svo virtist sem honum hefði verið ráðinn bani með stórum hníf. Mynd/austurfrétt
Rannsókn á manndrápi í blokkaríbúð við Blómvang á Egilsstöðum í maí er á lokametrunum, að sögn Elvars Óskarssonar hjá lögreglunni á Eskifirði.

„Það tekur tíma, til dæmis fyrir tæknideildina, að vinna úr gögnunum sem berast til hennar og skila heildstæðri skýrslu. En einhvern tímann þurfum við að skila af okkur gögnum í hendurnar á ríkissaksóknara. Það fer að styttast í það – það verður á næstu vikum,“ segir Elvar.

Hálfþrítugur maður, sem bjó í sömu blokk og fórnarlambið Karl Jónsson, hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því að málið kom upp. Það var framlengt á föstudaginn var til 30. júlí og verður gert áfram að minnsta kosti þangað til ríkissaksóknari hefur ákveðið hvort hann verði ákærður.

Maðurinn vildi lítið tjá sig um málið í upphafi og að sögn Elvars hefur lítið breyst í þeim efnum. Hann hefur verið látinn gangast undir geðrannsókn en hvorki Elvar né Guðrún Sesselja Arnardóttir, verjandi mannsins, vilja gefa upp hvort hann sé talinn sakhæfur eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×