Innlent

Skorti yfirsýn og alþjóðleg tengsl

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Sænski ráðgjafinn Bengt Arstad var ekki í hópi umsækjenda um starfið. Hér sést illmennið Svarthöfði þegar Sinfónían lék lög um Stjörnustríði.
Sænski ráðgjafinn Bengt Arstad var ekki í hópi umsækjenda um starfið. Hér sést illmennið Svarthöfði þegar Sinfónían lék lög um Stjörnustríði.
Enginn af umsækjendum um stöðu tónlistarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands þótti hafa næg alþjóðleg tengsl og yfirsýn til þess að sinna starfinu. Því var Bengt Arstad endurráðinn sem ráðgjafi í starfið. Þetta staðfestir Arna Kristín Einarsdóttir, verðandi framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Fimm manns sóttu um stöðuna, sem var auglýst í lok maí. Að sögn Örnu voru þrír umsækjenda metnir hæfir en skorti yfirsýn og alþjóðleg tengsl, að mati þeirra sem um umsóknirnar fjölluðu.

Arna Kristín Einarsdóttir
Hún segir, að þess vegna hafi verið ákveðið að taka aftur upp ráðgjafasamning við Bengt Arstad, en hann hafi starfað með hljómsveitinni síðastliðin ár. Athygli vekur að hann uppfyllir ekki þær hæfniskröfur sem gerðar eru til umsækjenda um íslenskukunnáttu. Bengt Arstad var heldur ekki í hópi umsækjenda um starfið.

Þá hafi það skipt máli að verið sé að leita að nýjum aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníunnar, þar sem Ilan Volkov núverandi aðalhljómsveitarstjóri hættir eftir næsta starfsár. Staða tónlistarstjóra verði svo auglýst aftur og þá hugsanlega með breyttum áherslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×