Innlent

Skólastjórinn verður að skólaliða í haust

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Björn segist hugsanlega verða skólaliði næstu þrjú til fimm árin. „Ef skólastjórinn telur að ég standi mig,“ segir hann af auðmýkt.
Björn segist hugsanlega verða skólaliði næstu þrjú til fimm árin. „Ef skólastjórinn telur að ég standi mig,“ segir hann af auðmýkt. Fréttablaðið/Arnþór
Björn Pétursson var í vor hlaðinn lofi, gjöfum og þökkum við mikla athöfn enda lét hann þá af störfum sem skólastjóri Melaskóla. Honum þótti tilstandið þó helst til mikið því að hann er ekkert á förum þótt hann gæti sest í helgan stein með eftirlaun sín. Á komandi skólaári mun skólastjórinn fyrrverandi nefnilega sinna starfi skólaliða í skólanum.

„Ég er búinn að vera í Melaskólanum í 42 ár, sex ár sem nemandi og þrjátíu og sex sem starfsmaður,“ segir Björn. „Skýringin á þessu liggur bæði hjá Melaskólanum og svo hjá mér sjálfum. Hvað varðar Melaskólann þá er þetta staður þar sem fólk kemur til að vera. Starfsmannaveltan er mjög lítil. Margir kennaranna eru líka gamlir nemendur skólans. Þetta helgast af því að það er mjög góður andi þarna. En það sem að mér snýr ber merki þess að eflaust er ævintýraþráin af skornum skammti.“

Björn tekur við nýju hlutverki af mikilli auðmýkt. „Ég held að þetta verði skrítnara fyrir alla aðra en mig,“ segir hann. „Enda var það svo að þegar ég greindi kollegum mínum frá þessu þá var það eins og í Njálu, ég varð að segja þeim það þrem sinnum,“ segir hann kankvís. „Það verður eflaust undarlegt fyrir starfsmenn og eldri nemendur að sjá mig í nýju hlutverki.“

Þegar Björn er inntur eftir starfslýsingu á nýja starfinu virðist danski titillinn „altmuligman“ eiga einna best við. „Tveir veigamestu þættirnir eru að vera á verði í frímínútum og fylgjast með svo að allt gangi vel og svo er það að hjálpa til í matsalnum, bæði við skömmtun og frágang. Svo er það ýmislegt tilfallandi, það er nú svo margt í skólastarfinu sem ekki verður fyrirséð. Ég gæti til dæmis þurft að vera við baðvörslu í íþróttahúsinu. Svo er það eiginlega í hendi nýs skólastjóra að ákveða hvernig hann vill nota krafta mína. Þar sem maður er orðinn svo gamall og hokinn af reynslu getur maður nú gengið í öll störf. Til dæmis ef einhver kennaranna er vant við látinn get ég auðveldlega stokkið inn.“



Björn þekkir reyndar til flestra þessara verka enda taldi hann það ekki eftir sér, í skólastjóratíð sinni, að bretta upp ermar og gera það sem gera þurfti. Til dæmis tók hann að sér matarskömmtun eftir hrun þegar að kreppti í skólanum.

Hann ber engan kvíðboga fyrir því að verða undirmaður fyrrverandi undirmanna sinna. „Nei, reyndar er ég afar ánægður með það hvernig nýr skólastjóri, Dagný Annasdóttir, tók þessu. Það væru kannski ekki allir ánægðir með að hafa mig þarna enn þá en hún varð hin kátasta. Eins gæti það orðið skrítið fyrir umsjónarmenn að þurfa að segja mér, gamla yfirmanninum, til en fyrir mig verður það bara ánægjuleg tilbreyting.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×