Innlent

Væri það fyrsta sem yrði skorið

Brjánn Jónasson skrifar
Vigdís Hauksdóttir
Vigdís Hauksdóttir
Stjórnarþingmönnum sem skipaðir hafa verið í svokallaðan hagræðingarhóp ríkisstjórnarinnar verður ekki umbunað umfram þingfararkaupið fyrir setu í hópnum, segir Vigdís Hauksdóttir, sem situr í hópnum fyrir Framsóknarflokkinn.

Slíkar aukagreiðslur tíðkuðust á árunum 1995 til 2009 vegna starfa í ríkisfjármálanefnd. Aukagreiðslur til þingmanna fyrir slík störf voru felldar niður árið 2009, að því er fram kom í svari Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, við fyrirspurn á Alþingi árið 2011.

Fjallað er um málið á bloggsíðu Björns Vals Gíslasonar, fyrrverandi alþingismanns Vinstri grænna.

„Við fáum ekki laun, þetta er hluti af starfi okkar,“ segir Vigdís.

„Það væri hálf ankannalegt að taka sæti í nefnd sem á að skera niður ríkisstofnanir og jafnvel opinber störf og þiggja laun fyrir það til viðbótar við það sem maður hefur,“ segir Vigdís.

„Ef við fengjum einhverjar aukagreiðslur myndi ég leggja til að það yrði það fyrsta sem yrði skorið niður.“

Í svari fjármálaráðherra á Alþingi frá árinu 2011 kom fram að greiðslur til formanna og varaformanna fjárlaganefndar Alþingis vegna setu í ríkisfjármálanefnd hafi numið alls 7,5 milljónum króna á árunum 1995 til 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×