Innlent

Grashrúgurnar látnar liggja í borgarlandinu

Brjánn Jónasson skrifar
Grasið hefur ekki verið hirt í tíu daga, og blasir við þeim sem fara um götuna.
Grasið hefur ekki verið hirt í tíu daga, og blasir við þeim sem fara um götuna. Fréttablaðið/Pjetur
Hrúgur af slegnu grasi hafa fengið að liggja í rúma viku víða á grasbölum í Fossvoginum. Íbúi í hverfinu segir íbúa sjálfa hafa hirt hluta af grashrúgunum. Hann segist hafa kvartað til hverfamiðstöðvar borgarinnar en grasið úldni enn á grasflötunum.

„Ef þetta er svona þá er þetta er auðvitað ekki eins og þetta á að vera,“ segir Jón Halldór Jónsson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg.

Gras sem slegið var fyrir tíu dögum hefur fengið að liggja óhirt í tíu daga að sögn íbúa í nágrenninu.
Jón Halldór segir að bætt hafi verið við mannskap til að hreinsa upp gras eftir sláttuhópa sem slái borgarlandið, en gott sé að fá ábendingar borgarbúa bregðist þjónustan að einhverju leyti.

Jón Halldór hvetur borgarbúa til að benda á það sem betur má fara með því að fara inn á vefinn reykjavik.is/borgarland og setja þar inn ábendingar.

Í borgarlandinu eru samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg um 400 hektarar af graslendi sem þarf að slá. Það jafngildir um 550 fótboltavöllum.

Af því eru um 115 hektarar við þjóðvegina og sér þá Vegagerðin um slátt fjórum sinnum yfir sumartímann. Lítill hluti, um 22 hektarar, teljast til almenningsgarða og er sleginn vikulega.

Það sem eftir stendur, 264 hektarar, eru meðal annars svæði við almennar umferðargötur, manir, opinsvæði og lóðir leikskóla, og eru þau svæði slegin þrisvar til fjórum sinnum yfir sumartímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×