Innlent

Hljóðið gott þrátt fyrir vinnslustopp

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Það verður ekki fyrr en í haust sem aftur verður tekið á þeim gula hjá Vísi á Þingeyri.
Það verður ekki fyrr en í haust sem aftur verður tekið á þeim gula hjá Vísi á Þingeyri. Mynd/Hafþór Guðmundsson
Vinnslustopp hófst hjá fiskvinnslu Vísis á Þingeyri fyrir helgi. Vinnslustoppið mun vara í þrjár vikur en þá taka sumarleyfi starfsmanna við. Ástæðan er sú að kvótinn er búinn og ekki fæst nægilegt hráefni til að halda vinnslu gangandi. Um fjörutíu manns vinna í fiskvinnslunni.

Hafþór Guðmundsson verkstjóri segir að þrátt fyrir þetta sé engin barlómur í Þingeyringum. Til dæmis varði vinnslustoppið mun lengur í fyrrasumar, eða í tvo mánuði, fyrir utan sumarleyfið sem var einn mánuður. Svo hefur verið mikið að gera frá því vinnsla fór af stað síðastliðið haust. Þar að auki var hætta á að vinnslustoppið yrði mun lengra en þrjár vikur sem varð svo ekki raunin.

Eins hafa margir að einhverju öðru að snúa en aðrir verða að fara á atvinnuleysisbætur. „Hér eru nokkrir Pólverjar sem ætla að skreppa heim til Póllands. Ein er að spá að fara til Patreksfjarðar, það vantar í sumarafleysingar þar, og svo var eigandinn á hótelinu að reyna að fá fólk til starfa.“ Hann segir enn fremur að aðrir hafi hvort sem er þurft að hverfa frá vinnu frá og með deginum í gær þar sem leikskólinn fór þá í sumarlokun.



Vísir á og rekur fjórar starfsstöðvar. Þær eru í Grindavík, þar sem höfuðstöðvar þeirra eru einnig, á Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×