Innlent

Ræktar vindlatóbak og perur á Þingeyri

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Ásgerður Soffía með tóbaksplöntu. Hver veit nema hægt verði að vefja Havana-Þingeyrarvindla á næstu Dýrafjarðardögum.
Ásgerður Soffía með tóbaksplöntu. Hver veit nema hægt verði að vefja Havana-Þingeyrarvindla á næstu Dýrafjarðardögum. Mynd/Gísli Hjálmarsson
Ræktun sem hingað til hefur ekki þekkst svo nokkru nemi hér nálægt norðurheimskauti virðist ætla að ná að vaxa og dafna á Þingeyri. Þar eru til dæmis tóbaksplöntur sem teygja sig sífellt nær lofti heima hjá Ásgerði Soffíu Nönnudóttur.

„Þetta er nú bara Havana Golden-planta svo það er aldrei að vita nema ég geti boðið upp á Havana-Þingeyrarvindla á næstu Dýrafjarðadögum,“ segir Ásgerður Soffía og hlær við, en Dýrafjarðardagar fóru einmitt fram um síðustu helgi.

Það hefur verið frekar svalt fyrir vestan í sumar svo hún hefur ekki farið með Havana-plöntuna út en í garðinum er hún með kirsuberjatré, plómutré, eplatré, perutré og hin ýmsu hnetutré. Þar að auki hefur tré af gerðinni Giant sequoias fest rætur í garðinum en slík tré geta náð hátt í hundrað metra hæð, þó ólíklegt sé að slík reisn verði yfir því í Dýrafirðinum.

„Við bjuggum nokkur ár í Noregi og þar var okkur sagt að þar hafi verið ræktað tóbak á stríðsárunum,“ segir Ásgerður Soffía. „Svo ég hugsaði með mér að ef hægt er að rækta þetta í Noregi þá er það örugglega hægt á Íslandi líka.“ Og svo virðist vera því laufin eru um tíu til tuttugu sentímetra löng.

Ásgerður segir að eiginmaður sinn, Gísli Hjálmarsson, hafi og eggjað hana til tóbaksræktunar enda tilhugsunin um Dýrafjarðar-Havana-vindla afar spennandi. „Það verður eflaust hægt að byrja að þurrka þetta með haustinu en ég læt karlinn alveg um það,“ segir Ásgerður Soffía. Þó trén séu mörg í garðinum og af ýmsum gerðum eru fæst þeirra farin að bera ávöxt. „Þetta getur tekið nokkur ár og ég er frekar nýbyrjuð,“ segir hún. „Hins vegar kemur alltaf á kirsuberjatrén en ég læt fuglunum það eftir að tína af þeim,“ segir hún.

Ásgerður Soffía er ekki eini tóbaksræktandinn á landinu því á fréttavefnum Feyki segir frá Svani Elíassyni sem hóf tóbaksræktun þar sem honum blöskraði verðið á tóbaki. Þær plöntur dafna nú vel undir berum himni á Hvammstanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×