Íslenski boltinn

Heldur sigurganga KR áfram í bikarnum í Eyjum á morgun?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson v hetja KR-inga í Eyjum í bikarnum í fyrra.
Óskar Örn Hauksson v hetja KR-inga í Eyjum í bikarnum í fyrra. Mynd/Anton
Bikarmeistarar KR mæta út í Eyjar á morgun þar sem ÍBV-liðið getur endað tólf leikja sigurgöngu Vesturbæinga í bikarnum. Tveir aðrir leikir átta liða úrslita Borgunarbikarsins fara þá einnig fram en sá fjórði og síðasti er spilaður á mánudaginn.

KR-ingar hafa slegið ÍBV tvisvar út úr bikarnum í Eyjum á undanförnum þremur árum, þar af vann KR-liðið 2-1 sigur á ÍBV í 8-liða úrslitunum í fyrra þar sem Óskar Örn Hauksson skoraði tvö mörk á síðustu fjórum mínútum leiksins. Liðin hafa alls mæst átta sinnum í bikarnum í Eyjum og bæði hafa fagnað sigri fjórum sinnum. ÍBV vann hins vegar þrjá leikjanna á árunum 1996-98.

KR-ingar eru bikarmeistarar tveggja síðustu tímabila og hafa ekki tapað bikarleik utan Laugardalsvallar síðan í júlí 2007 þegar þeir töpuðu fyrir Val í vítakeppni. KR-ingar unnu bikarinn 2008, 2011 og 2012, fóru í úrslitaleikinn 2011 og töpuðu í undanúrslitum 2009 þegar þau fóru fram á Laugardalsvellinum. Liðið hefur unnið alla hina 22 bikarleiki sína á síðustu fimm árum.

Leikur ÍBV og KR hefst klukkan 17.00 en Fylkir tekur á móti Stjörnunni klukkan 19.15 og klukkan 20.00 hefst svo leikur Víkings og Breiðabliks í Víkinni sem verður einnig sýndur í beinni á Stöð 2 Sport. Lokaleikurinn er síðan á milli Gróttu og Fram á Seltjarnarnesinu á mánudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×