Innlent

Stækkunarstjóri ESB segir ekki hægt að hafa umsókn á ís að eilífu

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Össur Skarphéðinsson hafa eins og kunnugt er afar ólíkar skoðanir á Evrópumálum en eitt af fyrstu verkefnum nýs ráðherra var að gera hlé á þeim viðræðum sem sá gamli kom af stað.
mynd/utanríkisráðuneytið
Þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Össur Skarphéðinsson hafa eins og kunnugt er afar ólíkar skoðanir á Evrópumálum en eitt af fyrstu verkefnum nýs ráðherra var að gera hlé á þeim viðræðum sem sá gamli kom af stað. mynd/utanríkisráðuneytið
Íslensk stjórnvöld þurfa að ákveða sig sem fyrst hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram eða ekki. Þetta segir Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra ESB.

„Það er svo sem enginn sérstakur tímarammi, en Stefan Füle [stækkunarstjóri ESB] hefur sagt íslenskum stjórnvöldum frá okkar hugmyndum því við þurfum líka að gera ráðstafanir,“ segir hann. „Eini ramminn sem við höfum núna til að skipuleggja samband okkar við Ísland er umsóknin ykkar og það sem hefur nú þegar komið fram í viðræðunum.“

Peter Stano.
Stano minnist á að ESB sé kunnugt um að aðildarviðræður verði teknar upp á Alþingi með haustinu og ekki sé búist við því að mikið gerist fyrr en þá. 

„En það er ljóst að þetta getur ekki verið sett á ís að eilífu,“ segir hann. „Þess vegna þurfum við að fá viðbrögð frá íslenskum stjórnvöldum sem fyrst.“

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sagt að ekkert sé búið að ákveða varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB. Fram kom í fréttum Stöðvar 2 á miðvikudag að rétt tæplega helmingur þjóðarinnar vildi klára aðildarviðræðurnar, samkvæmt nýrri könnun Capacent. Um fjörutíu prósent vilja slíta viðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×