„Það er svo sem enginn sérstakur tímarammi, en Stefan Füle [stækkunarstjóri ESB] hefur sagt íslenskum stjórnvöldum frá okkar hugmyndum því við þurfum líka að gera ráðstafanir,“ segir hann. „Eini ramminn sem við höfum núna til að skipuleggja samband okkar við Ísland er umsóknin ykkar og það sem hefur nú þegar komið fram í viðræðunum.“

„En það er ljóst að þetta getur ekki verið sett á ís að eilífu,“ segir hann. „Þess vegna þurfum við að fá viðbrögð frá íslenskum stjórnvöldum sem fyrst.“
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sagt að ekkert sé búið að ákveða varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB. Fram kom í fréttum Stöðvar 2 á miðvikudag að rétt tæplega helmingur þjóðarinnar vildi klára aðildarviðræðurnar, samkvæmt nýrri könnun Capacent. Um fjörutíu prósent vilja slíta viðræðum.