Lífið

Hjólað um Viðey í kvöld

Hin árlega hjólaferð um Viðey er opin öllum, byrjendum sem vönum hjólaköppum.
Hin árlega hjólaferð um Viðey er opin öllum, byrjendum sem vönum hjólaköppum.
Íslenski fjallahjólaklúbburinn verður með sína árvissu hjólaferð um Viðey í kvöld.

„Það er alltaf mjög góð þátttaka,“ segir Ágústa Rós Árnadóttir, aðstoðarverkefnastjóri Viðeyjar.

„Þau hjóla um eyjuna þvera og endilanga og skoða söguna, hús og minjar. Hjólaleiðin er alls ekki strembin svo allir geta hjólað með, börn og fullorðnir, svo lengi sem þeir kunna að hjóla. Ferðin er alls ekki miðuð út frá vönum hjólreiðagörpum.“

Með í för verður landfræðingurinn Jónas Vilhelmsson, en hann fjallaði um Viðey í meistararitgerð sinni. „Hann hjólar með hópnum og segir frá þeim stöðum sem tengjast sögu eyjarinnar,“ segir Ágústa. „Aðalatriðið er samt að vera úti að hjóla.“

Ókeypis er í ferðina en greiða þarf í ferjuna sem fer frá Skarfabakka kl. 18.15 og 19.15. Gjald fyrir fullorðna fram og til baka er 1100 krónur, börn 7-15 ára greiða 550 krónur en ókeypis er fyrir 6 ára og yngri.

„Ákveðin hefð hefur skapast í ferðinni að enda í Viðeyjarstofu og fá sér vöfflukaffi. Það er alltaf ánægjuleg kvöldstund,“ segir Ágústa. Áætluð heimför er kl. 22.00.

Handhafar menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og í Viðeyjarstofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.