Innlent

Bændur áminntir fyrir sóðaskap

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Ábúendur á bænum Ytri - Knarrtungu á Snæfellsnesi hafa ekki orðið við óskum bæjarins um bætta umgengni. Heilbrigðisyfirvöld ætla að skoða málið.
Ábúendur á bænum Ytri - Knarrtungu á Snæfellsnesi hafa ekki orðið við óskum bæjarins um bætta umgengni. Heilbrigðisyfirvöld ætla að skoða málið.
Bæjaryfirvöld í Snæfellsbæ gagnrýna harðlega umgengni á bænum Ytri-Knarrartungu í Snæfellsbæ.

Smári Björnsson, forstöðumaður tæknideildar Snæfellsbæjar, segir suma bæi virkilega þurfa að taka sig á.

„Það er einn af þessum Knarrartungubæjum sem er verstur og erfitt að eiga við. Þrátt fyrir margar tillögur og útrétta hjálparhönd frá okkur hefur þetta gengið illa,“ segir hann. Eitthvað þurfi að gera en af hálfu ábúanda sé „lítill vilji til þess að taka til.“

Hann segir þetta miður, sérstaklega miðað við hvað sveitarfélagið sé orðið fallegt. Snæfellsbær hafi reynt að höfða til ábúenda.

Eftir að vinsamlegar tillögur og ábendingar um bætta umgengni dugðu ekki til komu yfirvöld á staðinn með gám og buðust til þess að fjarlægja draslið þeim að kostnaðarlausu. Ekki var fallist á þá lausn.

„Þetta er alls ekki nógu gott,“ segir Smári, en bætir þó við að sumir sjái verðmæti í hlutum sem að aðrir sjá ekki. „Að mínu mati er þetta drasl en annar segir að þetta sé nytsamlegt.“

Helgi Helgason, framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Vesturlands, segir að málið verði tekið fyrir í vikunni. Heilbrigðiseftirlit í hverjum landshluta láta sig varða umgengni hjá fólki, en það er aðallega á könnu sveitarfélaganna að benda íbúum í sínu sveitarfélagi á þegar umgengni er ábótavant.

Birna Guðmundsdóttir, ábúandi á Ytri-Knarrartungu, vildi ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×