Innlent

Laxeldi skal í umhverfismat

Svavar Hávarðsson skrifar
Til stendur að ala 7.000 tonn af fiski.
Til stendur að ala 7.000 tonn af fiski. GVA

Fyrirhugað sjö þúsund tonna sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi, þar á meðal á laxi, skal háð mati á umhverfisáhrifum. Landssamband veiðifélaga (LV) telur um áfangasigur að ræða. Á síðasta ári ákvað Skipulagsstofnun að fyrirhugað 7.000 tonna sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi skildi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. LV kærði þá ákvörðun.

Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála hefur kveðið upp úrskurð sinn og eru úrskurðarorð nefndarinnar eftirfarandi: „Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 4. apríl 2012 um að 7.000 tonna áframeldi á eldisfiski í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.”

Í tilkynningu frá LV segir að um mikinn áfangasigur sé að ræða fyrir sambandið, og aðra sem kærðu úrskurðinn. „Þó er ekki um fullnaðarsigur að ræða enn. Gera verður ráð fyrir að nú verði farið í umhverfismat á áhrifum stórfelds fiskeldis á þessum slóðum. Óvíst er hvernig niðurstöður þess mats verða, og uns það liggur fyrir er of snemmt að fagna fullum sigri. En við vonum hið besta og þó ekki sé annað er það mikill sigur að hafa á endanum fengið viðurkennt að framkvæmdir af þessum toga séu háðar umhverfismati“, segir í tilkynningu LV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×