Sport

Taka áminningunni vegna Ríkharðs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ballið byrjað Ríkharður stýrði Fram í fyrsta skipti gegn Keflavík í Pepsi-deild karla í gærkvöldi.
Ballið byrjað Ríkharður stýrði Fram í fyrsta skipti gegn Keflavík í Pepsi-deild karla í gærkvöldi. Fréttablaðið/Stefán

Ríkharður Daðason, nýráðinn þjálfari karlaliðs Fram í knattspyrnu, hefur aðeins lokið fyrstu tveimur þjálfarastigunum hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Til að þjálfa meistaraflokk þarf Ríkharður að hafa lokið UEFA-A gráðu samkvæmt leyfisreglugerð KSÍ.

Hann á því eftir að sitja sex námskeið og þreyta tvö próf. Ríkharður er hins vegar á sextíu daga undanþágu sem veita má þegar þjálfaraskipti koma upp ef starf losnar á miðju tímabili.

„Við fáum náttúrulega bara áminningu,“ segir Brynjar Jóhannesson, formaður knattspyrnudeildar Fram, aðspurður hvort Ríkharður geti stýrt liðinu út leiktíðina. Engin sekt fylgir áminningunni. „Hann getur hins vegar ekki haldið áfram með liðið á næsta ári án tilskilinna réttinda,“ segir Brynjar.

Hann bendir á að Auðunn Helgason, aðstoðarmaður Ríkharðs, hafi tilskilin réttindi. „Við hefðum getað farið í kringum þetta og gert Auðun að aðalmanni ef við hefðum viljað fara í kringum þetta,“ segir Brynjar. Framarar taki hins vegar áminningunni þegar hún komi og fari svo yfir málin að tímabilinu loknu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×