Innlent

Batinn níu mánuðum fyrr á ferð

ÓKÁ skrifar
Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon

Efnahagsbati Íslands hefði verið mun fyrr á ferðinni ef samningum um Icesave-deiluna hefði strax verið lokið, sagði Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, í Sprengisandi á Bylgjunni í gær.

„Við hefðum verið svona níu mánuðum fyrr á ferðinni með endurreisnina,“ sagði Steingrímur í þættinum. Þá sagði hann eina af ástæðum þess að árið 2010 hefði orðið Íslendingum erfitt vera Icesave-málið.

„Við sátum föst þangað til í lok október 2009, komumst ekkert áfram með aðgerðirnar með AGS, að byggja upp gjaldeyrisforðann og mjög margt fleira sem hékk á þeirri spýtu. Og þetta tafði okkur síðan árið 2010 og á sinn þátt í því að landsframleiðslan dróst saman um meira en fjögur prósent á því ári. Batinn hefði með öðrum orðum getað orðið umtalsvert fyrr á ferðinni ef þetta mál hefði ekki þvælst svona fyrir okkur.“

Steingrímur sagði um háar tölur að tefla fyrir þjóðarbúið hvað hagvöxt varðaði og betri afkomu sem fljótlega hefðu náð að jafna þann reikning sem inni í framtíðinni hefði legið vegna gamla samningsins. „Að maður tali nú ekki um seinni möguleika á að leysa þetta sem voru enn hagstæðari,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×