Lífið

Í þriðja sæti yfir þær sterkustu í Bretlandi

Freyr skrifar
Lilja björg jónsdóttir fékk verðlaunapening og sverð fyrir þriðja sætið.
Lilja björg jónsdóttir fékk verðlaunapening og sverð fyrir þriðja sætið.

„Ég er í skýjunum,“ segir Lilja Björg Jónsdóttir, sem lenti í þriðja sæti á mótinu Sterkasta kona Bretlands í mínus 75 kg flokki. Þetta var hennar fyrsta erlenda stórmót og árangurinn því glæsilegur.

Lilja Björg hefur áður keppt í keppninni Sterkastu kona Íslands og varð í öðru sæti í síðustu keppni. Hún fékk boð um að taka þátt í Sterkustu konu Bretlands, eða Britain"s International Most Powerful Woman, frá Louise Blaides, sem vann einmitt keppnina í ár.

„Hún sendi mér skeyti á Facebook og spurði hvort ég vildi ekki taka þátt og ég sló til og ákvað að fara út,“ segir Lilja. „Ég var með frábæran stuðningshóp heima á Hornafirði sem studdi mig í þessu. Ég hefði ekki getað gert þetta án þeirra en þetta voru bæði fyrirtæki og einstaklingar.“ Hún fékk einnig góða hjálp frá eiginmanni sínum Guðna Þór Valþórssyni við undirbúninginn sem stóð yfir í fjóra mánuði.

„Hann stóð þétt við bakið á mér.“ Alls tóku sex konur þátt í hennar flokki og varð árangur Lilju Bjargar framar vonum. Hún fékk verðlaunapening fyrir þriðja sætið og forláta sverð sem hún kom með heim til Íslands í gær. Fram undan hjá henni er þátttaka í Sterkustu konu heims í október sem verður einnig haldin í Skotlandi. „Það verður svolítið aksjón þá. Ég er búin að sjá stelpurnar sem eru að fara að keppa þar og maður veit hvernig maður á að vera í október. Ég á góða möguleika,“ segir kraftakonan hress og bætir við að sú sem lenti í öðru sæti í Sterkustu konu Bretlands hafi einnig lent í öðru sæti í Sterkustu konu heims í fyrra. „Núna verður bara tekið á því fram í október.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.