Innlent

Endurkaup eigna skoðuð alvarlega

Ráðamenn í Eyjum ætla að ljúka endurkaupum á eignum bæjarins á næstunni. Áður hafði Garðabær keypt upp sínar eignir.
Ráðamenn í Eyjum ætla að ljúka endurkaupum á eignum bæjarins á næstunni. Áður hafði Garðabær keypt upp sínar eignir. fréttablaðið/hari

Sandgerðisbær og sveitarfélögin Vogar og Grímsnes- og Grafningshreppur hafa tekið sömu ákvörðun og Vestmannaeyjabær og ætla að kaupa fasteignir sínar út úr Eignarhaldsfélaginu Fasteign (EFF). Önnur sveitarfélög sem eiga aðild að félaginu kanna sína stöðu, ekki síst með hliðsjón af fjármögnun uppkaupa á fasteignunum.

Kaupa á 1,9 milljarða

Eins og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku hefur Vestmannaeyjabær ákveðið að kaupa til baka allar þær eignir sem bærinn leigir af EFF. Áætlað kaupverð eignanna er um 1,9 milljarðar króna og verða kaupin fjármögnuð úr sjóði sem varð til með sölu bæjarins á sínum hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Átta önnur sveitarfélög eiga aðild að EFF. Fréttablaðið hafði samband við sveitarstjórnarfólk og ljóst að flestir aðhyllast uppkaup eigna í EFF, óháð því að endurskipulagning félagsins í janúar þykir hafa tekist með ágætum.

Sjóðir nýttir til uppkaupa

Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði, segir að bæjarstjórn hafi markað þá stefnu að kaupa eignirnar til baka í áföngum og, líkt og Vestmannaeyingar, nota til þess Framtíðarsjóð sveitarfélagsins sem var stofnaður eftir sölu á hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Grunnskólinn var keyptur í apríl og við kaupin lækkuðu skuldbindingar sveitarfélagsins við Fasteign um tæplega helming. Stefnt er að uppkaupum á Íþróttamiðstöðinni og samkomuhúsi fyrir lok árs 2014, en þá verða vextir lána endurskoðaðir, og til sama tíma er í gildi heimild til kaupa án sérstaks uppgreiðsluálags. Árið 2015 munu afborganir, eða leigugreiðslur, hækka umtalsvert og horfa því flest sveitarfélögin til þess við endurskipulagningu. Haft var á orði að vegna skuldastöðu sveitarfélaga óttist menn að frekari vandræði séu fram undan hjá Fasteign og því er vilji til þess að koma sér út fyrir þann tíma til staðar. Jafnvel að félagið fari í þrot. Jákvæðni gagnvart endurskipulagningu Fasteignar megi skoða í þessu ljósi; menn líti hana jákvæðum augum vegna rýmri ákvæða til endurkaupa eigna, en síður að menn líti fyrirkomulagið jákvæðum augum heilt yfir.

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, segir að þegar hafi verið mörkuð sú stefna að kaupa fasteignirnar til baka, og enn og aftur er fjármagn frá sölu á Hitaveitu Suðurnesja nýttur. „Skólinn verður keyptur nú í ár, nánar tiltekið er gert ráð fyrir að þau kaup gangi í gegn þann 1. júlí. Þau kaup verða fjármögnuð með inneign í svokölluðum Framfarasjóði. Í árslok 2014 er gert ráð fyrir að kaupa íþróttamiðstöðina,“ segir Ásgeir og bætir við að heildaruppgreiðsluverð þessara eigna sé liðlega 1.100 milljónir króna. Fyrir utan handbært fé gerir sveitarfélagið ráð fyrir nýrri lántöku í lok árs 2014 að fjárhæð 400 milljóna króna.

Ingibjörg Harðardóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps, segir að hugur sveitarstjórnar hafi staðið til þess að kaupa eignir til baka í tvö ár. Beðið hafi verið eftir endurskipulagningu félagsins til að láta verða af því. Sveitarfélagið hefur óskað eftir 730 milljóna króna láni hjá Lánasjóði sveitarfélaga til að fjármagna endurkaup á skólanum, sem jafnframt er stjórnsýsluhús, sundlaug og íþróttahús.

Lánskjör viðunandi

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, bendir á að bærinn eigi nú meirihluta í EFF og með þeim breytingum sem gerðar voru um áramót fari 95% af leigugreiðslum upp í greiðslu lána af eignum bæjarins. „Eignirnar sem bærinn leigir þannig verða okkar eign á 25 árum. Lánskjör á þessum lánum eru nú að okkar mati mjög viðunandi, en við erum þó að skoða hvort unnt sé að fá hagstæðari lán. Ef það er mögulegt er sjálfsagt að við tökum þessar eignir fyrr til okkar með því að kaupa þær út úr Fasteign. Það kemur því vel til greina, en er bundið jákvæðum samanburði á þeim vöxtum sem nú eru greiddir af lánum EFF og þeim lánum sem við gætum fengið til að kaupa eignirnar,“ segir Árni.

Gunnsteinn Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að uppkaup eigna hafi verið rædd „...og því er ekki að neita að áhugi er fyrir því að sveitarfélagið eignist fasteignirnar sem um ræðir. Engin ákvörðun hefur verið tekin enn en verið er að skoða mögulegar fjármögnunarleiðir.“

Fyrir norðan og austan

Nokkuð annað hljóð kemur í strokkinn í svörum sveitarstjórnarmanna á Norður- og Austurlandi. Þar eru mál meiri óvissu háð þó vissulega séu menn að greina stöðuna í rólegheitum. Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, segir að sveitarfélagið hafi enn sem komið er ekki tekið afstöðu til málsins en reikna megi með því að það verði gert innan tíðar. Norðurþing hafi ákveðið að taka þátt í endurskipulagningu félagsins, sem hafi gengið með ágætum, áður en afstaða til áframhaldandi aðildar að EFF yrði tekin.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, segir enga ákvörðun hafa verið tekna á þessum tímapunkti „en það er engu að síður í skoðun að kaupa eignirnar út úr Fasteign og kemur það í ljós á næstu vikum hvaða ákvörðun verður tekin,“ segir Páll Björgvin. Í nágrannasveitarfélaginu Fljótsdalshéraði er staðan áþekk. Um uppkaup hefur ekki verið tekin nein ákvörðun en í yfirferð á fjármögnunarmálum sveitarfélagsins verður þessi þáttur skoðaður auk annarra, að sögn Björns Ingimarssonar bæjarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×