Innlent

Mat lagt á hættulega staði á ferðaslóðum

Páll Guðmundsson skrifar
Páll Guðmundsson
Páll Guðmundsson

Ferðafélag Íslands hefur í samstarfi við VÍS gert áhættumat á vinsælum gönguleiðum á landinu. Nú þegar hefur verið birt áhættumat á leiðum á Esjunni á vef félagsins, fi.is, sem hægt er að skoða án endurgjalds. „Við erum til dæmis búnir að taka Esjuna fyrir eins og hún leggur sig, alls tólf leiðir. Við höfum gengið þessar leiðir skref fyrir skref eftir kortum og myndum og metið hvað getur komið fyrir á hverjum stað,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Einnig er hægt að skoða áhættumat á Hornströndum, Laugaveginum, Fimmvörðuhálsi, Hvannadalshnjúk og Lónsöræfum.

Á næstu tveimur árum verður gert áhættumat á öðrum helstu gönguleiðum á landinu, að því er Páll greinir frá. Hann segir Ferðafélagið hafa viljað sýna þetta frumkvæði til að auka öryggi og tryggja för ferðamanna. „Þetta er jafnframt liður í að taka upp Vakann, sem er umhverfis- og gæðastjórnunarkerfi frá Ferðamálastofu.“ Páll getur þess að einnig hafi verið gert heildarmat á áhættunni við það að ferðast úti í náttúrunni. „Við bendum á leiðir til að draga úr hættu á að hrasa, villast, týnast, ofkælast eða lenda í vandræðum í vöðum og ám. Það er til dæmis hægt með því að huga að góðum búnaði, vera í góðum skóm og fatnaði, vera í fylgd með öðrum og láta vita af ferðum sínum. Besta reglan er að snúa frá eða hætta við ef maður er óöruggur um einhver atriði.“ ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×