Innlent

Ævintýralegt jafnrétti

Ólöf skrifar
Anna Elísa Hreiðarsdóttir
Anna Elísa Hreiðarsdóttir mynd/starfsmannasíða HA

„Við ætlum að vinna með ævintýri sem börnin þekkja,. Ævintýrin eru allstaðar og hafa verið notuð markvisst af markaðsöflum til að móta fastar gamaldags kynjahugmyndir og þetta á að vera mótvægi við því, svona bakvið tjöldin,“ sagði Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og verkefnisstýra nýs þróunarverkefnis á leikskólanum Iðavelli á Akureyri.

Iðavöllur hefur á næsta skólaári innleiðingu nýs þróunarverkefnis. Verkefnið snýr að því að kafa ofan í ævintýri sem börnin þekkja, og snúa við kynjahlutverkum og spyrja áleitinni spurninga um hlutverk kynjanna. Þannig leitast verkefnið eftir því að svara hverjar jafnréttis- og kynjahugmyndir fjögurra ára barna eru og hvernig megi vinna með þær. Börnin eru þannig látin pæla í aðstæðunum sem hetjurnar í ævintýrunum standa frammi fyrir.

Hefði það breytt einhverju ef Rauðhetta væri strákur?

„Við ætlum að byrja á því að vinna með Rauðhettu sem er stelpusaga, svo ætlum við að taka fyrir Búkollu, sem er strákasaga, og vonandi náum við að taka Hans og Grétu fyrir líka, þar sem bæði stelpa og strákur eru í aðalhlutverki. Svo er hugmyndin að börnin semji eigin sögur og þá koma kennarar til með að greina hvort sögurnar þeirra verði í hefðbundnu ævintýrasniði, um prinsessur og bardaga eða hvort viðhorfin breytist eitthvað,“ sagði Anna Elísa jafnframt.

Í nýjum aðalnámskrám er krafa um jafnréttisuppeldi á öllum grunnstigum menntunar. „Ég mat það sem svo að aðrir grunnþættir hefðu sterkari grunn en jafnréttisuppeldi, þess vegna réðst ég í þetta verkefni,“ bætti Anna Elísa við.

Kristlaug Svavarsdóttir, leikskólastjóri á Iðuvelli fagnar þessu framtaki og því að stuðla að aukinni vitund barna, og kennara, um jafnrétti og kynjahlutverk. „Við fengum styrk frá Menntamálaráðuneytinu til að setja þetta verkefni í gang. Hugmyndin er svo sú að nýta þetta ferli til þess að búa til námsefni sem svo fleiri leikskólar geta nýtt sér. Við ætlum að búa til áætlun um hvernig sé hægt að vinna með kynjahlutverk í gegnum sögur og leik,“ sagði Kristlaug. „Við erum jafnréttissinnuð á Íslandi, og margir sigrar unnist, en það er margt óunnið og samkvæmt rannsóknum virðist ákveðið bakslag hafa orðið í viðhorfum unglinga gagnvart jafnrétti. Þess vegna er mikilvægt að byrja snemma að innleiða þessar hugmyndir í börnin,“ bætti Anna Elísa við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×