Innlent

Um 30 þúsund lán Landsbankans í endurútreikning

Hér má sjá steininn sem velti hlassinu, en þetta er bíllinn sem Plastiðjan höfðaði málið út af.
Hér má sjá steininn sem velti hlassinu, en þetta er bíllinn sem Plastiðjan höfðaði málið út af. Mynd/Stöð2

„Fyrst og fremst er það ánægjan yfir því að dómurinn hafi komist að sömu niðurstöðu og við þegar við fengum endurútreikninginn frá SP-fjármögnun. Við erum vissulega glaðir yfir því að þetta geti haft jákvæð áhrif á samfélagið allt,“ segir Axel Óli Ægisson, framkvæmdastjóri Plastiðjunnar.

Fyrirtækið hafði betur gegn SP-fjármögnun, sem nú er hluti af Landsbankanum, í Hæstarétti í gær. Deilt var um uppgjör lánasamnings Plastiðjunnar og SP-fjármögnunar vegna kaupa á Mercedes Benz-bifreið. Upphæð samningsins var um fimm milljónir króna. Axel segir ljóst að fordæmisgildið sé gríðarlegt og í húfi séu tugþúsundir samninga upp á milljarða króna. Hann segir viðbrögðin hafa verið gríðarleg í kjölfar dómsins, en fjöldi jákvæðra símhringinga og ummæla fólks sem telur sig vera í sömu stöðu og fyrirtækið sé staðfesting á því. „Við töldum að á okkur hefði verið brotið og erum bara þeirra gerðar að við látum ekki slíkt yfir okkur ganga,“ segir Axel.

Í tilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að beðið hafi verið eftir dómnum og ánægju lýst með að niðurstaða skuli vera fengin og óvissu eytt sem ríkt hafi um endurreikning bílálána. „Landsbankinn hefur nú þegar hafið vinnu við að yfirfara endurreikning allra sambærilegra bílalánasamninga hjá bankanum. Þar sem við á mun endurreikningurinn verða leiðréttur þannig að hann verði í samræmi við niðurstöðu dómsins,“ segir þar. Lán sem þarfnast skoðunar í bankanum vegna dómsins eru sögð um það bil 30 þúsund talsins. „Vinnunni verður hraðað eins og auðið er og er gert ráð fyrir að fyrstu bílalánin verði leiðrétt í byrjun júlí næstkomandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×