Innlent

Vonar að hlutur kvenna aukist

Sara Nassim Hlakkar til haustsins þegar hún hefur nám við AFI.
Sara Nassim Hlakkar til haustsins þegar hún hefur nám við AFI. Mynd/Úr Einkasafni

Sara Nassim, kvikmyndagerðarkona á Íslandi, komst nýlega inn í meistaranám í framleiðsludeild American Film Institute í Los Angeles.

„Það er náttúrulega frábært að komast þarna inn, og ég hlakka til að byrja í ágúst,“ sagði Sara í samtali við Fréttablaðið.

American Film Institute er einn virtasti kvikmyndaháskóli í heimi og því ljóst að það er mikill heiður að hljóta inngöngu. Á meðal útskrifaðra nemenda AFI eru Darren Aronofsky og David Lynch.

„Ég bjóst ekkert við því að komast inn enda fáir teknir inn á hverju ári.“ Sara hefur verið iðin við kolann síðastliðin ár og hefur komið að gerð fjölda kvikmynda, auglýsinga og sjónvarpsþátta á Íslandi. Ljóst er að mikill missir verður að Söru í stéttinni.

„Ég hlakka til að fara í skóla og veit að ég mun læra margt sem getur nýst mér í starfi. Kvikmyndagerð er skemmtileg, en á köflum krefjandi vinna. Ég vil halda áfram á sömu braut, en það verður ekkert verra að skipta aðeins um umhverfi þótt ég muni sakna allra sem ég er vön að vinna með hér heima,“ sagði Sara.

„Ég vona bara að íslensk kvikmyndagerð haldi áfram að þróast á þeim hraða sem hún hefur verið að gera undanfarin ár. Hver veit? Kannski kem ég heim og loksins verður búið að rétta hlut kvenna í bransanum,“ sagði Sara kímin. - ósk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×