Innlent

Tíu daga róður að baki

Guðna Páli var vel fagnað þegar hann kom til lands í Vestmannaeyjum í gærkvöldi.
Guðna Páli var vel fagnað þegar hann kom til lands í Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Mynd/Óskar P. Friðriksson
Guðni Páll Viktorsson, sem rær þessa dagana hringinn í kringum landið, kom til lands í Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Hann hefur nú róið í tíu daga en í gær reri hann alls 60 kílómetra.

„Þetta hefur gengið vel og ég er bara brattur. Miðað við veðurfar er ég eiginlega á undan áætlun,“ segir Guðni Páll, sem tekur sér eins dags frí frá róðrinum í dag og fer ekki í felur með það að hvíldin sé kærkomin. Hann er þó ekki farinn að sjá eftir því að hafa farið í ferðalagið. „Ég er mjög ánægður með þessa ákvörðun enda er þetta ótrúlega skemmtilegt. Ég vissi að þetta yrði ekkert auðvelt en það skiptir mestu að ég er vel undirbúinn,“ segir Guðni.

Meðan á ferðalaginu stendur safnar Guðni Páll áheitum sem munu renna til Samhjálpar. Fyrir vikið ber róðurinn nafnið Lífróður Samhjálpar 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×