Innlent

Frábær árangur segir Jón Gnarr

Skiptar skoðanir eru um ágæti ársreikninga borgarinnar.
Skiptar skoðanir eru um ágæti ársreikninga borgarinnar.
„Annað árið í röð er taprekstur í borginni sem gefur til kynna að aðhald í rekstri borgarinnar sé ábótavant,“ segir í tilkynningu sem borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna sendi frá sér í tilefni birtingar ársreiknings Reykjavíkurborgar.

Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar segir hins vegar að „birt hafi til“ í ársreikningum sem sýni að aðgerðaáætlun eigenda og stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur hafi gengið framar vonum. Halli A-hluta borgarinnar hafi aðeins verið 44 milljónir króna þrátt fyrir að gjaldfærsla vegna lífeyrisskuldbindinga hafi verið 2,9 milljarðar en ekki 600 milljónir eins og áætlað hafi verið.

„Þetta er frábær árangur og gott dæmi um þann stöðugleika sem tekist hefur að ná hér í borginni á síðustu þremur árum,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri í tilkynningu.

„Á tímabili núverandi meirihluta hefur aðhaldið verið ófullnægjandi og kerfið vaxið á kostnað borgarbúa,“ segir hins vegar í tilkynningu sjálfstæðismanna. „Það er auðvelt að stjórna með því að taka stöðugt fé af fjölskyldum og fyrirtækjum í borginni,“ sagði Júlíus Vífill Ingvarsson sjálfstæðismaður á borgarstjórnarfundi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×