Innlent

Dæmdar 50.000 krónur í bætur

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Konan vildi eina milljón króna í bætur vegna aðgerða lögreglu en fékk 50 þúsund krónur. Fréttablaðið/Valli
Konan vildi eina milljón króna í bætur vegna aðgerða lögreglu en fékk 50 þúsund krónur. Fréttablaðið/Valli
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær íslenska ríkið til að greiða konu 50 þúsund krónur í miskabætur. Konan hafði réttarstöðu sakbornings við rannsókn máls, en niðurstaðan var sú að hún hefði ekki tengst málinu.

Rannsóknin tengdist mansalsmáli þar sem ung kona var flutt til landsins frá Litháen. Sambýlismaður konunnar var handtekinn ásamt fimm litháískum ríkisborgurum og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann var síðar sýknaður af kröfum ákæruvaldsins þar sem sekt hans þótti ekki sönnuð.

Konan var handtekin 20. október 2009. Lögreglan gerði húsleit á heimili hennar vegna gruns um aðild hennar að fyrrgreindu mansalsmáli auk gruns um peningaþvætti, tryggingasvik og hugsanlega önnur brot. Konan taldi húsleitina, símahlustun og fleiri aðgerðir lögreglu ólögmætar og fór í mál við ríkið. Hún krafðist einnar milljónar króna í miskabætur.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að rökstuddur grunur hafi verið um aðild konunnar og að aðgerðir lögreglu hafi verið réttmætar og eðlilegar. Henni voru þó dæmdar 50.000 krónur þar sem rannsókn leiddi í ljós að hún tengdist ekki sakamálinu og „hafi hvorki valdið né stuðlað að þessum aðgerðum lögreglu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×