Innlent

Sprotafyrirtæki selt á milljarð

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hópurinn sem stóð að CLARA árið 2008.
Hópurinn sem stóð að CLARA árið 2008. Fréttablaðið/Arnþór
Íslenska sprotafyrirtækið CLARA ehf. hefur verið selt bandaríska hugbúnaðarfyrirtækinu Jive Software Inc. fyrir sem svarar um einum milljarði króna. Jive er skráð á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn í New York. Upplýst er um kaupin í ársfjórðungsuppgjöri Jive.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins keypti fyrir um ári 18 prósenta hlut í CLARA. Samkvæmt heimildum blaðsins hefur sjóðurinn með sölu fyrirtækisins tvöfaldað fjárfestingu sína á einu ári.

CLARA, sem stofnað var í Reykjavík árið 2008, sérhæfir sig í að greina mikið magn af texta og draga út upplýsingar sem auðvelda viðskiptavinum að fá yfirsýn yfir umræðu sem myndast um fyrirtæki, vörumerki og einstaklinga.

Jive, sem stofnað var árið 2001 og er með aðsetur í Palo Alto í Kísildalnum í Bandaríkjunum, framleiðir hins vegar sérsmíðaða læsta samfélagsmiðla, sem starfsmenn stórra fyrirtækja nota í samskiptum við vinnufélaga sína.

Að baki Jive standa svo fjárfestingafyrirtækin Kleiner Perkins Caufield & Byers og Sequoia Capital. Þau eru þekkt fyrir fyrri fjárfestingar í tækniheiminum, svo sem í fyrirtækjum á borð við Apple, Instagram, Yahoo, Linkedin, Netscape, Amazon og Google.

CLARA opnaði sölu- og markaðsskrifstofu í Kísildalnum í Kaliforníu í mars árið 2011 og var þá í sama húsnæði og Google var í þegar það var nýstofnað. Félagið var þá fyrsta íslenska tæknifyrirtækið til að hefja starfsemi þar og eftir því sem næst verður komst fyrsta íslenska fyrirtækið sem bandarískt fyrirtæki úr Kísildalnum kaupir.

Uppfært:

Vegna þess, sem fram kemur um kaupverð í fréttinni vill Jive software árétta: Mikilvægt er að benda á að um er að ræða samning um greiðslu í bæði reiðufé og hlutabréfum.  Nákvæmt verð kemur reyndar ekki fram í fréttinni heldur einungis áætlað verð í íslenskum krónum. En eina nákvæma talan sem gefin var upp var að kaupverð vegna viðskiptanna með CLARA og StreamOnce (sem Jive keypti á sama tíma og CLARA) var innt af hendi með 11,3 milljónum dala í reiðufé og um það bil 533.000 hlutum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×