Lífið

Útrýma veseni og vergangi á hæstu tindum

Einar lét undan þrýstingi og heldur ball á laugardag þar sem hljómsveitin Brimnes spilar.
Einar lét undan þrýstingi og heldur ball á laugardag þar sem hljómsveitin Brimnes spilar. Fréttablaðið/GVA
„Mig langaði að ganga á Leggjabrjót fyrir tveimur árum en það er alltaf svo mikið vesen með bíla þegar maður er að ganga frá A til B. Ég nennti varla að standa í þessu veseni en datt í hug að smala fólki saman svo hægt væri að leigja rútu. Á leiðinni heim var ákveðið að fara í aðra göngu og allt í einu var búið að stofna klúbb,“ segir Einar Skúlason, frumkvöðull og einvaldur í gönguklúbbnum Vesen og vergangur. Klúbburinn er einn af fjölmennustu gönguklúbbum landsins og fagnar tveggja ára afmæli um þessar mundir.

„Þegar kom að því að nefna hann varð hann að heita Vesen því það var verið að leysa svo mikið vesen. Einhver vildi líka kalla hann Vergang þannig að við smelltum þessu saman. Við erum í raun að koma í veg fyrir vesen og vergang því það er öruggara að ganga með öðrum.“

Meðlimir í klúbbnum eru rúmlega tvö þúsund og koma úr öllum áttum. Göngurnar eru miserfiðar og því ætti enginn að vera hræddur að skella sér í klúbbinn.

Einar byrjaði ungur að ganga á fjöll og er með bók um gönguleiðir í bígerð sem kemur út í vor. Hann heldur ball í Iðnó á laugardag til að fagna tveggja ára afmæli gönguklúbbsins.

„Það eru allir velkomnir og þetta gæti verið fyrsta skrefið til inngöngu í klúbbinn – mæta fyrst á ball og fara síðan á fjall,“ segir Einar en allar upplýsingar um klúbbinn og ballið er að finna á Facebook-síðu Vesens og vergangs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.