Innlent

Fleiri stéttir taka upp stofnanasamninga

Óli Kristján Árnason skrifar
Formaður Sjúkraliðafélagsins kynnti sjúkraliðum fyrirætlanir um kjarabætur til handa kvennastéttum í heilbrigðisgeira í gær.
Formaður Sjúkraliðafélagsins kynnti sjúkraliðum fyrirætlanir um kjarabætur til handa kvennastéttum í heilbrigðisgeira í gær. Fréttablaðið/Valli
Sjúkraliðafélag Íslands boðaði síðdegis í gær til almenns félagsfundar til að kynna stöðu og horfur í kjaramálum í kjölfar þess að skrifað var undir nýjan stofnanasamning milli hjúkrunarfræðinga og Landspítalans.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélagsins, segir að í kjölfarið verði farið fram á viðræður við Landspítalann um endurskoðun stofnanasamnings sjúkraliða við spítalann á svipuðum nótum og gengið hafi verið frá við hjúkrunarfræðinga. Þær viðræður séu hluti af áframhaldandi vinnu í takt við stefnu stjórnvalda og vilyrði um að hækka laun kvennastétta. „Þetta á að ganga yfir allar heilbrigðisstofnanir ríkisins,“ segir hún.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra var spurður út í stöðuna í kjaraleiðréttingum heilbrigðis- og kvennastétta í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gærmorgun. Þar sagðist hann fagna því að samningar hefðu náðst milli stjórnar Landspítalans og hjúkrunarfræðinga og vonast til að sem flestir vildu starfa áfram við spítalann.

Lausn á vanda hjúkrunarfræðinga, sem setið hefðu eftir í launaþróun, sagði hann litið á sem fyrsta skrefið í umfangsmeiri aðgerðum til að sporna við kynbundnum launamun hjá hinu opinbera. Guðbjartur sagði að ríkið hefði sett um 400 milljónir króna í að leysa vanda hjúkrunarfræðinga.

„Og auðvitað verður haldið áfram að vinna stofnanasamninga fyrir aðrar stéttir sem hafa eftir því leitað,“ sagði hann og kvað tóninn hafa verið sleginn í þeim efnum. „Þingið mun koma að því ásamt ríkisstjórn að finna út með hvaða hætti og hvaða upphæðum við eyðum til að leysa það mál.“

vísir/valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×