Innlent

Rúmlega helmingur vill halda í krónuna

Krónan
Krónan
Meirihluti landsmanna vill að krónan verði framtíðargjaldmiðill landsins samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Fleiri vilja halda krónunni nú en fyrir tveimur árum.

Alls sögðust 52,6 prósent þeirra sem afstöðu tóku vilja að krónan verði framtíðargjaldmiðill á Íslandi, en 47,4 prósent sögðust ekki vilja krónuna áfram.

Hlutfall þeirra sem vilja halda krónunni hefur hækkað verulega, en 40,5 prósent vildu halda krónunni í febrúar 2011, þegar afstaðan til hennar var könnuð síðast í skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Enn færri, 38,1 prósent, voru þeirrar skoðunar í apríl 2009.

Stuðningur við krónuna er afar misjafn eftir stjórnmálaskoðunum fólks. Meirihluti stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna vill halda krónunni, en lítill hluti stuðningsmanna Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar er sömu skoðunar, eins og sjá

má hér til hliðar.

Mikill munur er á afstöðu kynjanna til krónunnar. Minnihluti karla, 46 prósent, vill halda krónunni, en ríflegur meirihluti kvenna, 60,1 prósent.

Einnig er talsverður munur á afstöðu fólks eftir aldri. Um 55,5 prósent fólks á bilinu 18 til 49 ára vilja að krónan verði framtíðargjaldmiðill Íslands, en 49 prósent 50 ára og eldri.

Við framkvæmd könnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 var hringt í 1.382 manns þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki. Hringt var miðvikudaginn 30. janúar og fimmtudaginn 31. janúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Vilt þú að krónan verði framtíðargjaldmiðill á Íslandi? Alls tóku 72,8 prósent þeirra sem tóku þátt afstöðu til spurningarinnar.

brjann@frettabladid.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.