Skoðun

Valdníðsla

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 429/2012 var X, sem starfar sem lögreglumaður, sýknaður af kynferðisbroti sem átti að hafa gerst í maí 2010 á Blönduósi.



Þegar X hugðist mæta til starfa á nýjan leik í desember 2012 á grundvelli ákvörðunar ríkislögreglustjóra þess efnis tilkynnti lögreglustjórinn á Blönduósi X að ekki væri við hæfi að hann kæmi til starfa við embættið þar sem rannsókn væri hafin á öðru broti X sem varðaði við almenn hegningarlög. Lögreglustjórinn á Blönduósi neitaði hins vegar alfarið að upplýsa X og lögmann hans um sakarefnið.



Sakarefnið skýrðist fyrst við skýrslutöku af X um miðjan desember 2012, en þá kom í ljós að um var að ræða atvik sem átti að hafa gerst í mars 2010 á Skagaströnd eða um svipað leyti og atvikið á Blönduósi. Atvikalýsing í báðum málunum er nánast samhljóma en meintur brotaþoli í síðara tilvikinu er kona á þrítugsaldri. Við skýrslutöku hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu í maí 2010 vegna atvikisins á Blönduósi var X spurður undir rós um hið meinta atvik á Skagaströnd.



Nú liggur fyrir að lögreglustjórinn á Blönduósi, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknari höfðu vitneskju um hið meinta atvik á Skagaströnd strax í maí 2010. Enginn þessara aðila taldi ástæðu til þess að hefja rannsókn á hinu meinta broti, en samkvæmt 1. mgr. 52 gr. sakamálalaga skal lögreglan hvenær sem þess er þörf hefja rannsókn út af vitneskju eða grun um að refsivert brot hafi verið framið hvort sem henni hefur borist kæra eða ekki. Af framansögðu verður ekki annað ráðið en að það hafi verið mat framangreindra þriggja handhafa lögreglu- og ákæruvalds að refsivert brot hafi ekki verið framið.



Hringing frá lögreglu

Það er síðan 6. desember 2012, tveimur dögum eftir að ríkislögreglustjóri tekur ákvörðun um rétt X til að snúa aftur til starfa sem lögreglumaður á Blönduósi, og tveimur árum og átta mánuðum eftir að hið meinta atvik á að hafa gerst, að lögreglustjórinn á Blönduósi hringir í meintan brotaþola og segir að lögreglu hafi borist til eyrna að hún hafi svipaða sögu að segja og stúlkan sem kærði X í maí 2010. Lögreglan bað meintan brotaþola að skrifa frásögn sína niður á blað án þess að séð verði að meintur brotaþoli hafi verið brýnd um vitnaskyldu og ábyrgð og hvað afleiðingar rangur framburður gæti haft í för með sér fyrir vitnið.



Daginn eftir náði lögreglan í frásögnina heim til meints brotaþola og með bréfi, dags. 10. desember 2012, sendi lögreglustjórinn á Blönduósi, frásögnina til ríkissaksóknara til skoðunar og þóknanlegrar ákvörðunar. Í bréfinu segir að um sé að ræða erindi/bréf frá brotaþola sem borist hafi 7. desember 2012, rétt eins og meintur brotaþoli hafi sent lögreglunni bréfið að eigin frumkvæði. Þegar hér var komið sögu átti ríkissaksóknari ekki annan kost í stöðunni en að hefja formlega rannsókn á málinu og var málið sent til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á Akureyri. Vegna rannsóknar málsins var tekin skýrsla af meintum brotaþola og fimm lögreglumönnum.



Hvött til að kæra

Í þessum skýrslutökum kemur meðal annars fram að strax vorið 2010 höfðu a.m.k. fimm nafngreindir lögreglumenn á Blönduósi samband við brotaþola og hvöttu hana til þess að kæra X, en lögreglumennirnir höfðu ýmist samband símleiðis eða hittu meintan brotaþola fyrir í vinnunni. Samhliða því að hvetja meintan brotaþola til þess að kæra X upplýstu einhverjir lögreglumannanna brotaþola um atvikið á Blönduósi sem þeim bar lögum samkvæmt að gæta þagnarskyldu um. Í framhaldinu hafði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu samband við meintan brotaþola og bauð henni að leggja fram kæru ásamt því að bjóða henni aðstoð sama réttargæslumanns og gætti hagsmuna meints brotaþola vegna atviksins á Blönduósi. Brotaþoli sagði lögreglumönnunum ítrekað að hún vildi ekki kæra X.



Síðan liðu tvö og hálft ár. Þann 29. nóvember 2012 var X sýknaður í Hæstarétti vegna atviksins á Blönduósi og fimm dögum síðar skipaði ríkislögreglustjóri X í embætti lögreglumanns á Blönduósi á nýjan leik. Tveimur dögum síðar ákvað lögreglustjórinn á Blönduósi að eigin frumkvæði að hefja rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi X sem á að hafa átt sér stað í mars 2010. Hver skyldi nú hafa verið tilgangur lögreglustjórans á Blönduósi að hefja rannsókn á þessu gamla máli á þessum tímapunkti?



Svarið er að finna í lögregluskýrslu sem tekin var af brotaþola 11. desember 2012, en aðspurð um tilurð rannsóknar lögreglustjórans á Blönduósi á hinu meinta broti sagði brotaþoli að hún hefði alls ekki viljað kæra, en lögreglan á Blönduósi hefði sagt að hún væri að gera þeim greiða með því að skrifa niður frásögnina í því skyni að fá X ekki aftur til starfa sem lögreglumann á Blönduósi.



Með bréfi dags. 28. janúar 2013 felldi ríkissaksóknari ofangreint mál niður. Sú niðurfelling hlýtur að marka upphafið að rannsókn ríkissaksóknara á saknæmri og ólögmætri valdníðslu og annarri refsiverðri háttsemi lögreglunnar á Blönduósi gagnvart X og eftir atvikum meintum brotaþola.




Skoðun

Sjá meira


×