Innlent

Unglingaball með víni tekjuleið fyrir reiðhöll

Reksturinn er í járnum og hestamannafélögin skjóta stoðum undir fjárhaginn með balli síðasta vetrardag.
Reksturinn er í járnum og hestamannafélögin skjóta stoðum undir fjárhaginn með balli síðasta vetrardag. Mynd/Faxaborg

„Það er óásættanlegt að börnum sé boðið upp á þær aðstæður að vera með fullorðnum á böllum þar sem má vera með vín á flöskum,“ segir Inga Vildís Bjarnadóttir úr samstarfshópi um forvarnir í Borgarbyggð. Forvarnarhópurinn gagnrýnir svokölluð „flöskuböll“ í reiðhöllinni í Faxaborg þar sem gestir mega hafa með sér áfengi og þar sem aldurstakmarkið er aðeins sextán ár. Hestamannafélögin Skuggi í Borgarnesi og Faxi í Borgarbyggð reka Faxaborg, sem að stærstum hluta er í eigu sveitarfélagsins. Eftir ábendingu frá forvarnarhópnum í fyrra setti Borgarbyggð reglur um að börn yngri en átján ára mættu ekki sækja dansleiki í húsnæði sem sveitarfélagið á nema í fylgd með fullorðnum.

Síðasti dansleikurinn í Faxaborg með sextán ára aldurstakmarki var með Páli Óskari á síðasta vetrardag. Forvarnarhópurinn hefur aftur óskað eftir íhlutun sveitarfélagsins. „Við erum ekki að tala um að það sé hræðilegt að detta í það einu sinni heldur til hvers það leiðir. Og við viljum ekki að sveitarfélagið bjóði upp á þær aðstæður. Ekki er Reykjavíkurborg að halda úti húsnæði þar sem sextán ára krakkar eru velkomnir inn á böll þar sem áfengi flýtur,“ segir Inga Vildís. „Þetta eru engin lög og við ákváðum að hunsa þetta,“ segir Kolbeinn Magnússon, formaður stjórnar Seláss, rekstrarfélags Faxaborgar. Alger einhugur hafi verið um málið hjá hestamannafélögunum.

Að sögn Kolbeins er um að ræða tvo dansleiki á ári, svokallaða Sauðamessu Borgnesinga í október og ball sem reiðhöllin heldur sjálf í fjáröflunarskyni á síðasta vetrardag. „Við verðum að halda okkur á fullu gasi til að missa ekki höllina heldur koma henni á réttan kjöl,“ segir Kolbeinn og undirstrikar að ballið síðasta vetrardag hafi verið auglýst með leyfi sýslumanns. „Við ákváðum að fara ekki að þessum tilmælum þeirra og vera í staðinn með mjög öflugt eftirlit. Krakkarnir voru til algerrar fyrirmyndar,“ segir Kolbeinn. „Okkur persónulega, mér og mörgum fleiri, finnst þessi forvarnarhópur fari offari. Eru ekki sextán ára krakkar betur komnir undir eftirliti á samkomu en hangandi í sjoppum og húsasundum?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×