Innlent

Björgun branduglu varð bjarnargreiði

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ef eitthvað er að ungum eru þeir oft skildir eftir af foreldrum sínum í náttúrunni og þurfa að gera tilraun til að bjarga sér sjálfir.
Ef eitthvað er að ungum eru þeir oft skildir eftir af foreldrum sínum í náttúrunni og þurfa að gera tilraun til að bjarga sér sjálfir. Fréttablaðið/Pjetur
„Við fáum mörg símtöl á dag frá fólki sem hefur fundið unga eða treystir sér ekki til að taka ábyrgð á ungum. Ef við tækjum við þeim öllum, þá gerðum við ekki annað,“ segir Stella Kristjánsdóttir, dýrahirðir í Húsdýragarðinum.

„Þegar fólk hringir og segir okkur að það hafi fundið unga segjum við því oftast að láta þá bara í friði, vegna þess að oftast kemur móðirin að leita að unganum sínum þegar fólkið fer,“ útskýrir Stella.

„Dýrin verða hrædd við fólk og láta sig hverfa. Svo fara þau kannski aftur að leita að ungunum sínum þegar mannfólkið er farið. Það er þá leiðinlegt að búið sé að hirða ungann,“ bætir Stella við. „Náttúran sér alveg um sína,“ útskýrir hún.

Nokkrir krakkar úr Vinnuskólanum lögðu leið sína á Hólmsheiði þar sem þau höfðu verið við vinnu um nokkurt skeið. Þar rákust þau á brandugluhreiður. Krakkarnir höfðu séð uglupar með unga í hreiðri – en í fyrradag höfðu allir farið úr hreiðrinu nema þessi eini ófleygi ungi, sem virtist einn og yfirgefinn í hreiðrinu.

„Í dýraríkinu er það þannig að foreldrar yfirgefa oft afkvæmi sín ef eitthvað er að. Þegar dýrin eru að koma til okkar kemur oft í ljós hvað það svo er sem er að þeim,“ segir Stella jafnframt. „Yfirleitt er best að láta dýr vera í svona aðstæðum, leyfa náttúrunni að sjá um þau, nema unginn sé vængbrotinn eða eitthvað álíka. Þá þarf auðvitað að koma honum til aðstoðar,“ útskýrir Stella.

„Við munum að sjálfsögðu koma þessari uglu á legg, en hún þarf að læra að afla sér matar. Við getum ekki kennt henni það,“ bætir Stella við.

„En ég sagði þeim bara að koma með ungann og hann tekur allavega vel við mat hjá okkur og er alveg afskaplega hress,“ segir Stella.

Aðspurð segist Stella ekki sjá neitt að brandugluunganum enn sem komið er. „En við eigum eftir að sjá það betur,“ útskýrir Stella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×