Innlent

Þrjár króatískar fjölskyldur fara heim

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Yfirvöld í Króatíu hafa samþykkt að taka við þeim þremur króatísku fjölskyldum sem urðu eftir hér á landi þegar flogið var með  landa þeirra heim til Króatíu í lok maí. Upphaflega vildu yfirvöld í Króatíu ekki taka við þeim vegna þess að um blönduð hjónabönd var að ræða.

Fjörtíu og átta króatískir hælisleitendur komu til Íslands í byrjun þessa árs. Þeim var öllum synjað um hæli hér á landi. Ellefu drifu sig strax aftur heim en í  lok maí  var flogið með tuttugu og sjö þeirra beint til Króatíu í flugvél sem var leigð undir flutningana af Ríkislögreglustjóra.  Tíu manns, úr þremur fjölskyldum, urðu þá eftir hér á landi því króatísk yfirvöld vildu ekki taka við þeim. Ástæðan var að um blönduð hjónabönd var að ræða, eiginkonurnar voru ekki með króatíska pappíra.

Yfirvöldum í Króatíu hefur nú snúist hugur og samþykkt að taka við fólkinu. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu gáfu þau enga útskýringu á viðsnúningnum, sögðust aðeins hafa endurskoðað afstöðu sína og afsökuðu sein svör. Búið er að ganga frá öllum pappírum í ráðuneytinu og er málið nú í höndum Ríkislögreglustjóra sem sér um flutninginn á fjölskyldunum til Króatíu. Ekki fengust upplýsingar frá embætti Ríkislögreglustjóra í dag um hvenær eða hvernig fólkið fer aftur til síns heima.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×