Innlent

Grýtti lögreglustöðina á Selfossi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Maður sem var handtekinn eftir að hafa ekið undir áhrifum áfengis var greinilega ekki sáttur við sinn snúð og hóf að grýta lögreglustöðina á Selfossi eftir að honum var sleppt.
Maður sem var handtekinn eftir að hafa ekið undir áhrifum áfengis var greinilega ekki sáttur við sinn snúð og hóf að grýta lögreglustöðina á Selfossi eftir að honum var sleppt.
Lögreglan á Selfossi hafði um sexleytið í morgun afskipti af ökumanni sem var á akstri eftir Biskupstungnabraut við Þingvallaveg. Sá reyndist vera undir áhrifum áfengis og var því fluttur á lögreglustöðina á Selfossi í blóðsýnatöku.

Að því loknu var honum sleppt og hann frjáls verða sinna. Maðurinn lét þó ekki þar við sitja, en ekki leið á löngu þar til hann fór að berja á glugga lögreglustöðvarinnar og kasta í hana grjóti.

Hann var í kjölfarið handtekinn aftur og færður í fangaklefa þar sem hann var látinn sofa úr sér.

Þá svipti lögreglan mann ökurétti í dag, en hann hafði ekið bifreið sinni á 185 kílómetra hraða á Lyngdalsheiði á leið að Laugarvatni. Undanfarið hafa lögreglumenn verið við hraðamælingar á þeim slóðum. Annar ökumaður var kærður fyrir hraðakstur á Suðurlandsvegi undir Ingólfsfjalli, en sá  mældist á 114 kílómetra hraða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×