Innlent

Tíu vændiskaupendur ákærðir - Alls 86 meintir kaupendur

Stígur Helgason skrifar
Lögreglan kynnti afrakstur rannsóknar sinnar á blaðamannafundi í apríl.
Lögreglan kynnti afrakstur rannsóknar sinnar á blaðamannafundi í apríl. Fréttablaðið/GVA
Tíu mál gegn kaupendum vændis eru á dagskrá Héraðsdóms Reykjaness á fimmtudaginn í næstu viku. Nöfn sakborninganna eru ekki birt á dagskránni, þar kemur aðeins fram að hvert kynferðisbrotið á fætur öðru á hendur einstaklingum sem allir eru kallaðir „A“ verði þingfest.

Fréttablaðið hefur upplýsingar um að málin snúist um kaup á vændi og séu hluti af málum sem bárust Ríkissaksóknara frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Alls voru mál 86 ætlaðra kaupenda send ákæruvaldinu og þau snerust meira og minna um kaup á vændi af tveimur konum.

Ekki fást upplýsingar um það hvort gefnar hafi verið út ákærur í fleiri málum en þessum tíu sem komin eru á dagskrá Héraðsdóms Reykjaness. Samkvæmt heimildum blaðsins hafa einhver mál verið felld niður hjá Ríkissaksóknara en þó er ljóst að ákært verður í mun fleiri málum en þessum tíu.

Í apríl kynnti sérstakt teymi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum afrakstur margra mánaða rannsóknar á vændi og mansali á Íslandi. Við rannsóknina var sjónum einkum beint að vændi sem auglýst var á netinu og í smáauglýsingum.

Fram kom í skýrslu greiningardeildar Ríkislögreglustjóra að lögregla hefði ekki fundið sannanir fyrir því að mansal þrifist í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×