Innlent

Aðgangur að húsnæði ætti að vera jafn

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Anita Brá segir það skrítið að stúdentar eigi ekki jafnan aðgang að húsnæði.
Anita Brá segir það skrítið að stúdentar eigi ekki jafnan aðgang að húsnæði.
„Stúdentar í háskólum verða að komast að heiman,“ segir Anita Brá Ingvadóttir, formaður Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík. „Fólk er heima til 25 ára aldurs því það hefur ekki efni á öðru. Því fagna ég öllum breytingum sem styðja stúdenta í leigumálum.“

Þingflokkur Bjartrar framtíðar hefur lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um húsaleigubætur þannig að stúdentar sem leigja saman á almennum markaði fái greiddar húsaleigubætur eins og þeir sem fá sérstakar stúdentaíbúðir. Flokkurinn vill að stúdentar njóti sama stuðnings hvort sem þeir leigja á námsgörðum eða á almennum markaði.

Stúdentafélag HR fagnar framtaki þingmanna Bjartrar framtíðar en hvetur þá til að huga áfram að því að jafna stöðu háskólanema með því að tryggja jafnan aðgang að húsnæði.

„Við viljum sjá framtíðarstefnu í húsnæðismálum allra stúdenta á höfuðborgarsvæðinu, óháð því hvaða nafn, aldur eða sögu skóli þeirra ber. Félagsstofnun stúdenta leigir út fjölmargar íbúðir fyrir stúdenta en þær eru eingöngu fyrir nemendur Háskóla Íslands. Ef litið er almennt til leigumála stúdenta þá er skrýtið að það sé ekki jafn aðgangur að húsnæði.“

Félagsstofnun stúdenta hýsir 1.500 einstaklinga, nemendur og fjölskyldur þeirra, í byggingum sínum. Stúdentar HÍ eiga Félagsstofnun stúdenta og vinnur stofnunin eingöngu í þágu þeirra. FS er sjálfseignarstofnun, þiggur ekki styrki frá ríkinu heldur fjármagnar byggingar með lánum frá Íbúðalánasjóði og eigin féi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×