Enski boltinn

Ólíkar skoðanir Gylfa og Villas-Boas

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson segir tap Tottenham gegn Fulham um helgina mega að einhverju leyti rekja til 120 mínútna leiks Spurs gegn Inter í Evrópudeildinni á fimmtudag.

Gylfi segir í viðtali við Guardian að liðið hafi aldrei komist almennilega í gang gegn Fulham. Dimitar Berbatov skoraði eina markið í 1-0 sigri gegn sínum gömlu félögum.

„Ég vil ekki afsaka okkur en mínúturnar 120 á fimmtudaginn spiluðu líklega þátt í þessu að viðbættu ferðalaginu. Við hefðum þó getað spilað betur þrátt fyrir þreytu," segir Gylfi sem var í byrjunarliði Spurs fimmta leikinn í röð.

Andre Villas-Boas gerði fimm breytingar á byrjunarliði Spurs á milli leikjanna. Hann neitar því að leikurinn í Mílanó hafi komið niður á liðinu gegn Spurs.

„Við vorum með ferska fætur á vellinum eins og allir sáu. Við hristum upp í liðinu," segir Villas-Boas. Gylfi og Moussa Dembele voru tveir þeirra fimm sem byrjuðu báða leikina. Þeir félagar spiluðu báðir 120 mínútur í Mílanó og voru fjarri sínu besta gegn Fulham líkt og flestir liðsmanna Spurs. Voru þeir báðir teknir af velli í síðari hálfleik.

Chelsea gæti spilað 70 leiki

Spurs á í harðri baráttu við Chelsea og Arsenal um 3. sætið í deildinni. Liðið hafnaði í 4. sæti í deildinni á síðustu leiktíð en sætið dugði ekki til þátttöku í Meistaradeildinni í ár þar sem Chelsea varð Evrópumeistari og hirti sætið af Spurs.

Spurs hefur spilað 44 leiki á tímabilinu líkt og Arsenal en Chelsea er komið í 53 leiki. Spurs gæti spilað 57 leiki færi liðið alla leið í Evrópudeildinni. Chelsea gæti hins vegar farið í 70 leiki gangi allt upp í deildabikarnum og FA-bikarnum. Arsenal á hins vegar aðeins níu deildarleiki eftir og spilar því 53 leiki á tímabilinu.

„Við höfum enn fulla trú á því að komast í Meistaradeildina," segir Gylfi. Spurs mætir Swansea sem Gylfi spilaði með á síðasta tímabili annan laugardag. „Við höfum sýnt á tímabilinu að við erum þess megnugir," segir Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×