Enski boltinn

Terry: Lampard er sá besti í sögu Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry og Frank Lampard.
John Terry og Frank Lampard. Mynd/Nordic Photos/Getty
John Terry, fyrirliði Chelsea, segir að liðsfélagi sinn Frank Lampard sé besti leikmaðurinn í sögu Chelsea en Lampard skoraði sitt tvö hundraðasta mark fyrir félagið um síðustu helgi.

John Terry tjáði sig um vin sinn og liðsfélaga í langan tíma í viðtali við Sjónvarpsstöð Chelsea. Terry og Lampard hafa spilað saman í tólf ár hjá Chelsea.

„Fólk er að tala um að [Gianfranco] Zola eða aðrir góðir menn séu bestu leikmennirnir í sögu Chelsea en mitt mat er að Frank [Lampard] sé sá besti. Við elskum hann allir og gerum allt til þess að hjálpa honum að ná markametinu," sagði John Terry.

Frank Lampard vantar nú aðeins tvö mörk til að jafna félagsmet Bobby Tambling.

„Það eru bara tveir leikmenn sem hafa sýnt stöðugleika hvað varðar góða spilmennsku og markaskor á undanförnum tíu til fimmtán árum og það eru Frank Lampard og Ryan Giggs. Það er magnað að sjá hvað Frank er búinn að skora mörg mörk á þessu háa getustigi og hvað hann er hungraður í að skora fleiri mörk. Hann er fyrirmynd fyrir alla leikmenn," sagði Terry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×