Tuttugu og tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þrettán þeirra voru stöðvaðir í Reykjavík, fjórir í Hafnarfirði, þrír í Kópavogi og einn í Garðabæ og Mosfellsbæ.
Þrír voru teknir á föstudagskvöld, ellefu á laugardag og átta á sunnudag. Sex þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og þrír hafa aldrei öðlast ökuréttindi.
Piltur um tvítugt var tekinn í tvígang fyrir fíkniefnaakstur í Reykjavík um síðustu helgi en hann var fyrst stöðvaður í vesturbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags og síðan aftur um hálfum sólahringi síðar í austurbænum.
Drengurinn var afar ósáttur þegar lögreglan stöðvaði hann í síðara skiptið og vildi meina að lögreglan væri að leggja hann í einelti.
„Ég hef séð hærri tölur um ölvunar- og fíkniefnaakstur á einni helgi en þetta er vissulega allt of mikið,“ segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson kynningarfulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.
„Við vorum ekkert í neinu sérstöku átaki um helgina og var starfið allt mjög hefðbundið. Lögreglan var með ákveðið átak í nóvember þegar við stöðvuðum um 600 manns í miðborg Reykjavíkur. Í því átaki voru átta ölvaðir og fimm sem höfðu neytt áfengis en voru undir refsimörkum. Þá helgina tók lögreglan samtals 23 ökumenn sem er svipað og um síðustu helgi.“

