Innlent

Sextíu prósent með of háan blóðþrýsting

Um síðustu helgi buðu Hjartaheill og SÍBS upp á ókeypis mælingar á blóðþrýstingi og fleiri gildum í SÍBS húsinu. Í tilkynningu segir að gríðarlegur fjöldi fólks hafi þekkst boðið og þegar mest var náði biðröðin út á götum.

Það voru hjúkrunarfræðinemar, ásamt starfsfólki Hjartaheilla, sem sinntu mælingum. Alls voru 714 einstaklingar mældir og nú þegar lokið hefur verið við að taka upplýsingarnar saman kemur í ljós að 60% þeirra sem komu á mælingu reyndust vera með of háan blóðþrýsting. Þar af voru 43 einstaklingar á hættusvæði.

Mörgum var bent á að fara til læknis í framhaldi af mælingunni. Mælingar sem þessar benda til þess að skimanir gagnavart lífsstílssjúkdómum eigi fullan rétt á sér, enda má rekja tvo-þriðjuhluta dauðsfalla og drjúgan hluta af örorku til sjúkdóma sem má hafa áhrif á með lífsstíl: mataræði, hreyfingu, áfengis- og tóbaksneyslu, svefnvenjum, streituumhverfi og fleiru.

Verkefnið var samstarfsverkefni SÍBS, Hjartaheilla og Félags hjúkrunarfræðinema, og er lokapunktur á hringferð um landið þar sem á fimmta þúsund einstaklinga hafa þegið boð um skimun á blóðþrýstingi, blóðfitu- og blóðsykursgildum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×