Innlent

Franska konan enn ófundin

Mynd tengist efni fréttarinnar ekki beint
Mynd tengist efni fréttarinnar ekki beint

Leit að konu sem saknað er í Heydal í Mjóafirði við Ísafjarðardjúp hefur enn engan árangur borið.

Lögreglan á Vestfjörðum sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem lýst er eftir konunni, sem er frönsk. Hún heitir Maylis Lasserre.  Hún er grannvaxin, um 170 cm á hæð, hrokkinhærð með fremur sítt skolleitt hár sem hún oftast greiðir í tagl.  Hún var í gær klædd gallabuxum, og prjónasjali.

Konan mun hafa ætlað í stutta gönguferð frá Heydal um kl.10:00 í gærdag. Þegar hún skilaði sér ekki aftur hófu ábúendur í Heydal og nágrenni eftirgrennslan og leit. 

Á ellefta tímanum í gærkveldi var lögreglunni tilkynnt um konuna og að leit heimamanna hafi ekki borið árangur. 

Svæðisstjórn björgunarsveitanna (Landsbjargar)  á norðanverðum Vestfjörðum var kölluð út og í framhaldinu fóru tugir björgunarsveitarmanna til leitar í Heydal og nágrenni.  

Í nótt voru 30 björgunarsveitarmenn við stanslausa leit á svæðinu. 

Sérstakir leitarhundar voru og eru notaðir við leitina.

Þá tók Landhelgisgæslan þátt í leitinni með þyrlu í alla nótt. 

Nú eru um 50 björgunarsveitarmenn við leit og er búist við að þeir verði um 100 um hádegið.  Björgunarsveitarmönnum er alltaf að fjölga á svæðinu enda koma þeir frá öllum Vestfjörðum og einnig frá Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu.

Hugsanlegt er að konan hafi gengið út á þjóðveginn í Mjóafirði og fengið far með einhverjum þeirra bifreiða sem leið áttu um Ísafjarðardjúpið í gær.

Þeir sem hugsanlega hafa orðið Maylis varir eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 450 3730 eða 112. 

Þessu er sérstaklega beint til ökumanna sem leið áttu um Ísafjarðardjúpið í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×