Innlent

Fulltrúar WikiLeaks grunaðir um að áforma brot gegn íslenska ríkinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ástæða þess að bandaríska alríkislögreglan, FBI, kom til Íslands sumarið 2011 var sú að FBI og íslenska lögreglan rannsökuðu saman mögulega árás á tölvukerfi Stjórnarráðsins. Þetta kemur í samantekt lögreglunnar sem birt var í dag.. Þetta kemur í samantekt lögreglunnar sem birt var í dag.

Upphaf málsins hér á landi voru upplýsingar sem FBI kom á framfæri 20. júní 2011 um fyrirhugaða tölvuárás. Um væri að ræða alþjóðleg samtök tölvuhakkara sem hefðu hakkað sig inn í tölvukerfi fyrirtækja og stofnana víða um heim, yfirtekið kerfin og stolið gögnum. Þann 23. júní komu fulltrúar FBI til fundar við fulltrúa ríkislögreglustjóra og gerðu frekari grein fyrir málinu. Sama dag gerðu fulltrúar ríkislögreglustjóra ríkissaksóknara og fulltrúum forsætis-, innanríkis- og utanríkisráðuneytisins grein fyrir stöðu málsins.

Ákveðið var í framhaldi af framangreindu að lagt yrði til við FBI að leggja fram formlega réttarbeiðni þar sem óskað væri eftir aðstoð íslenskra yfirvalda í máli þessu. Í framhaldinu kom fram réttarbeiðni frá þeim þann 4. júlí 2011 sem lögum samkvæmt var send innanríkisráðuneytinu. Ráðuneytið féllst á að taka beiðnina til meðferðar og framsendi erindið ríkissaksóknara til frekari fyrirgreiðslu með bréfi 6. júlí 2011.

Í samantekt Ríkislögreglustjóra og Ríkissaksóknara segir að sama dag hafi Ríkissaksóknari framsent réttarbeiðnina til ríkislögreglustjóra til meðferðar. Hjá Rkislögreglustjóra hafi verið unnið áfram að íslenska hluta rannsóknarinnar í samvinnu við Ríkissaksóknara. Um hafi verið að ræða grun um alvarleg brot sem beindust gegn íslenska ríkinu. Þeirri rannsókn sé ekki lokið en fram hafi komið vísbendingar um að íslendingur og erlendir aðilar með tengsl við Wikileaks samtökin eigi hér hlut að máli.

Koma FBI til Íslands hefur verið töluvert til umræðu undanfarna daga eftir að Kristinn Hrafnsson greindi frá því að alríkislögreglan hefði komið til Íslands. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, greindi frá því að fulltrúar alríkislögreglunnar hefðu farið inn í tölvuna sína. Þeir hefðu verið að rannsaka WikiLeaks hérlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×