Fótbolti

Bebe: Ég skildi aldrei hvað Ferguson sagði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Portúgalinn Bebe, leikmaður Manchester United, var í athyglisverðu viðtali hjá dagblaði í heimalandinu í dag.

Alex Ferguson, stjóri United, kom mörgum á óvart þegar hann keypti Bebe árið 2010 frá Vitoria de Guimaraes. Bebe var nánast óþekktur á þeim tíma en Ferguson viðurkenndi svo að hafa aldrei séð hann spila.

Bebe hefur spilað alls sjö leiki með aðalliði United og skoraði í þeim tvö mörk. Hann var í láni hjá Besiktas í Tyrklandi á síðasta tímabili en missti af stórum hluta þess eftir að hafa slitið krossband í hné.

Hann spilaði ekkert með United fyrir áramót og spilar nú sem lánsmaður hjá Rio Ave í Portúgal.

„Ég tók Manchester United aldrei alvarlega og skildi aldrei orð sem Alex Ferguson sagði. Ég hugsaði með mér að ég væri kominn hingað, væri að standa mig vel og þyrfti ekki að leggja hart að mér á hverjum degi. Það var mér að kenna,“ er haft eftir Bebe.

„Ég vil fara til baka og það bendir allt til þess. En ef ég fæ ekki að spila vil ég frekar fara þangað þar sem ég fæ að spila reglulega. En ég ræði reglulega við þjálfarana og þeir vilja fylgjast með mér. Það gefur mér von.“

Hann segir að Ferguson komi vel fram við sig eins og aðra. Hann gagnrýni leikmenn til að hjálpa þeim.

„Hann gerir það reglulega með Nani. Hr. Ferguson gagnrýnir hann, líklega vegna þess að honum finnst að hann ætti að geta spilað af sömu getu og Cristiano Ronaldo,“ sagði hann og bætti svo við athyglisverðri sögu um sjálfan sig.

„Alex Ferguson bað mig um að láta klippa mig. Ég gerði það næsta dag og mætti honum svo margoft. Hann þekkti mig ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×