Innlent

Hnoðri jafnvel útskrifaður í dag

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Kötturinn Hnoðri var hnoðaður til lífs í gær.
Kötturinn Hnoðri var hnoðaður til lífs í gær. Mynd/Kristján
„Hnoðri var rosahress og sprækur þegar við mættum til vinnu í morgun. Hann borðaði vel í morgun þannig að þetta lítur vel út,“ segir Helga Úlfarsdóttir, dýralæknir hjá Dýralæknastofu Dagfinns á Skólavörðustíg.

Kötturinn Hnoðri var hætt kominn eftir að hann varð fyrir reykeitrun í bruna á Urðarstíg í gær og var endurlífgaður af slökkviliðsmönnum. Hann fannst meðvitundarlaus inni í brennandi húsi á Urðarstíg en snör viðbrögð skökkviliðsmanna urðu til þess að Hnoðri komst aftur til meðvitundar og er nú á batavegi á Dýralæknastofu Dagfinns.

„Við munum skoða lungun í honum í dag og þá kemur í ljós hversu alvarleg reykeitrun þetta er,“ segir Helga. „Ef það kemur vel út þá munum við líklega leyfa Hnoðra að fara heim til eigenda sinna síðar í dag. Við fylgjumst vel með honum.“

Hnoðri er 13 ára gamall persneskur kynjaköttur og er orðinn einn af frægari köttum landsins eftir ævintýri gærdagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×