Fótbolti

Heerenveen hafnaði tilboði Werder Bremen í Alfreð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
„Tilboðið var langt undir okkar væntingum,“ segja forráðamenn hollenska liðsins Heerenveen um tilboð þýska liðsins Werder Bremen í landsliðsmanninn Alfreð Finnbogason.

Alfreð sló í gegn með Heerenveen á síðasta tímabili og skoraði flest mörk sem Íslendingur hefur skorað í efstu deild á einu tímabili, hvort sem er hér á landi eða í öðrum evrópskum deildum.

Þýskir fjölmiðlar segja að tilboð Heerenveen hafi verið upp á fimm milljónir evra - um 800 milljónir króna. „Það var ekki nálægt fimm milljónum,“ sagði Johan Hansma, tæknistjóri Heerenveen við hollenska fjölmiðla.

„Við höfnuðum tilboðinu samstundis. Við verðum nú að bíða og sjá hver viðbrögð Werder verða. Við þurfum ekki að selja Alfreð þar sem staða félagsins er góð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×