Innlent

Biðlistar í aðgerðir lengjast stöðugt

Ingveldur Geirsdóttir skrifar
Áttatíu manns hafa beðið í meira en þrjá mánuði eftir því að komast í kransæðaaðgerðir hér á landi. Biðlistinn hefur aldrei verið lengri.  Landlæknir segir biðlista í ýmiskonar aðgerðir stöðugt hafa verið að lengjast síðastliðin ár.

Embætti landlæknis sendi nýverið frá sér yfirlit yfir biðlista eftir völdum skurðaðgerðum á sjúkrahúsum í júní 2013.

Aldrei hafa fleiri beðið eftir því að komast í hjarta og kransæðamyndatöku og kransæðavíkkanir hér á landi. Nú hafa  áttatíu manns beðið í þrjá mánuði eða lengur eftir því að komast að en á sama tíma í fyrra voru þeir um tuttugu, er þetta um 40% þeirra sem eru á bið- og vinnulistanum.  Ekkert lát virðist vera á fjölgun á listanum. 

„Það eru upplýsingar um það að slíkum aðgerðum hafi fækkað örlítið en þetta bendir í fyrsta lagi til þess að það eru fleiri að koma inn og að spítalinn hefur ekki tækifæri eða kraft til þess að bregðast við nægilega fljótt," segir Geir Gunnlaugsson landlæknir.

Hann segist ekki vita til þess að nokkur hafi látist af völdum kransæðasjúkdóma á meðan biðinni stendur þó biðin eftir aðgerð sé oft erfið.

„Það eru engar upplýsingar hjá mér um það að einstaklingar hafi borið skaða af því. En það er virkilega erfitt fyrir þá sem eru að bíða og þurfa á aðgerð að halda að finna það að þeim er ekki sinnt eins fljótt og vel og þeir óska og væntingar standa til."

Lengsti biðlistinn er fyrir skurðaðgerð á augasteini, en um 1200 einstaklingar hafa beðið lengur en þrjá mánuði eftir slíkri aðgerð og er það svipaður fjöldi og fyrri ár.  Biðlisti í legnámsaðgerð er líka langur, 72 konur bíða eftir því að fá leg sitt fjarlægt  og hafa þær aldrei verið fleiri, á sama tíma í fyrra biðu 45 konur.  47 bíða eftir því að komast í aðgerðir vegna kviðslits samanber við 28 í fyrra, biðlisti eftir gerviðlið í mjöðm hefur líka lengst en aðeins styst vegna legsigs.

„Það má segja að það sem við sjáum núna er að biðlistar hafa stöðugt verið að lengjast síðastliðin ár á fleiri aðgerðum en við höfum séð á allra síðustu árum. Þetta er flókin blanda af ýmsum ástæðum, ein þeirra varðar hversu margar aðgerðir eru framkvæmdir á hverjum tíma, það hefur orðið örlítið fækkun, þó ekki mikil. Einnig er þetta líka háð því hversu margir eru skráðir inn á biðlista og þeim virðist hafa fjölgað," segir Geir Gunnlaugsson landlæknir.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að biðlistar styttist á næstum árum svarar Geir að það sé sannarlega verkefni heilbrigðisstofnana á hverjum stað að skoða biðlistana og sjá hvað hægt er að gera og forgangsraða á grunni þeirrar niðustöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×