Fótbolti

Þjálfari Belenenses fagnar komu Eggerts

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mitchell van der Gaag, þjálfari portúgalska knattspyrnuliðsins Belenenses, fagnar komu Eggerts Gunnþórs Jónssonar til félagsins en leikmaðurinn gerði þriggja ára samning við liðið í gær.

„Eggert [Gunnþór Jónsson] er góður leikmaður sem getur leikið í nánast öllum stöðum,“ sagði Mitchell van der Gaag í viðtali við heimasíðu Belenenses.

Eggert Gunnþór Jónsson lék með Hearts á árunum 2005-2012 áður en hann var seldur til Wolves á síðasta ári. Leikmaðurinn fór þaðan á lán til Charlton Athletic en núna hefur hann samið við portúgalska félagið.

„Það var ekki farið vel með leikmanninn hjá Wolves og í raun var hann frystur þar, það opnaði ákveðna möguleika fyrir okkur og við gátum fengið leikmanninn til okkar. Sjálfur lék ég í Skotlandi og veit hversu erfitt það er fyrir útlendinga að finna sig þar. Eggert náði frábærum árangri hjá Hearts og það þarf kraft og hugrekki til að finna sig hjá liði í Skotlandi,“ sagði van der Gaag, en Hollendingurinn lék á árunum 1995-1997 fyrir Motherwell.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×