Enski boltinn

Gylfi Þór: Líður loksins mjög vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór og Gareth Bale fagna marki þess fyrrnefnda gegn Inter í Evrópudeildinni fyrr í þessum mánuði.
Gylfi Þór og Gareth Bale fagna marki þess fyrrnefnda gegn Inter í Evrópudeildinni fyrr í þessum mánuði. Nordic Photos / Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson er byrjaður að láta til sín taka hjá Tottenham eftir erfiðan fyrri hluta tímabilsins. Hann hefur reyndar komið við sögu í flestum deildarleikjum liðsins á tímabilinu en vann sér fyrst fast sæti í byrjunarliðinu með góðri innkomu gegn West Ham í lok síðasta mánaðar.

Gylfi var í byrjunarliði Tottenham í fimmta leiknum í röð þegar liðið tapaði fyrir Fulham, 1-0, í gær. Gylfi og félagar hans voru greinilega þreyttir eftir að hafa spilað í 120 mínútur gegn ítalska stórliðinu Inter á fimmtudagskvöldið. Tottenham tryggði sér þá sæti í fjórðungsúrslitum Evrópudeildar UEFA þrátt fyrir 4-1 tap fyrir Inter á San Siro. Tottenham mun mæta svissneska liðinu Basel í næstu umferð.

„Allir vilja spila sem mest og því hef ég verið mjög ánægður síðan ég kom inn á gegn West Ham," sagði Gylfi við Fréttablaðið en viðtalið var tekið áður en Tottenham mætti Fulham.

„Ég er að komast í toppæfingu og það var til dæmis mjög gott að fá 120 mínútur gegn Inter. Þetta er allt á réttri leið," segir Gylfi.

Tók tíma að aðlagast nýju liði

Gylfi var keyptur til Tottenham í sumar eftir að hafa slegið í gegn sem lánsmaður hjá Swansea á síðari hluta síðasta tímabils. Hann segir það hafa tekið tíma að venjast nýjum aðstæðum.

„Helsti munurinn á mér í dag og í upphafi tímabilsins er að nú veit ég hvernig liðið spilar. Það tók mig engan tíma að aðlagast Swansea því ég passaði beint inn í það lið. Þannig var það ekki hjá Tottenham en nú líður mér loksins mjög vel. Ég er kominn með gott sjálfstraust og leikæfingin er öll að koma til."

Hann segist ekki hafa verið farinn að missa von eða sjá eftir þeirri ákvörðun að fara til Tottenham. „Alls ekki. Ég var auðvitað ekki ánægður með hversu lítið ég fékk að spila en það var ekki hægt að hafna jafn stóru liði og Tottenham. Ef sénsinn kemur verður maður að taka hann, enda aldrei að vita hvort annað eins tækifæri bjóðist í lífinu."

Fæ að sækja inn á miðjuna

Gylfi hefur fyrst og fremst spilað á vinstri kantinum hjá Tottenham og líkar vel, þó svo að það sé ekki hans uppáhaldsstaða.

„Fyrst og fremst er ég ánægður með að fá að spila en það hefur verið gaman að fá að kljást við þetta hlutverk. Stjórinn hefur líka gefið mér ákveðið frelsi og vill að ég komi líka aðeins inn á miðjuna og sé svolítið laus, sem er gott."

Tottenham hefur nú tapað þremur leikjum í röð í öllum keppnum eftir að hafa komist á gott skrið á nýju ári. Gylfi segir þó að það sé engin örvænting í herbúðum liðsins en Tottenham gaf eftir á lokaspretti síðasta tímabils og rétt svo missti af sæti í Meistaradeildinni.

„Ég held að flestir hér séu vel meðvitaðir um það og við erum staðráðnir í að láta það ekki gerast aftur. Það tók okkur nokkra mánuði að komast almennilega í gang en við náum vonandi að bæta fyrir það á lokasprettinum," segir Gylfi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×