Innlent

„Mikilvægt að hrósa börnum“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Íþróttasálfræðingur segir mikilvægt að börnum sé hrósað og þeim leiðbeint þegar kemur að þeim íþróttum sem þau stunda. Hann segir mun fleiri börn stunda íþróttir til að hafa gaman en til að vinna.

Flest börn stunda einhverjar íþróttir á meðan þau eru að vaxa úr grasi og gera þau það á mismunandi forsendum. Eitt barn getur haft það fyrir augum að verða afreksmaður á meðan annað mætir á æfingar til að vera í stuði með félögum.

Fréttastofa ræddi við nokkra foreldra og þjálfara í dag og virðist pressa á börn koma úr mörgum áttum. Sumum foreldrum finnst þjálfarar of harðir við börn sín og svo segja þjálfarar suma foreldra setja mikla pressu á eigin börn, þeir hangi á öllum æfingum kvartandi yfir því að börnin þeirra séu ekki í flokknum fyrir ofan.

Hallur Hallsson íþróttasálfræðingur segir börn fyrst og fremst þurfa stuðning og að skapað sé rétt umhverfi fyrir þau. „Þá þurfum við að vita ástæður þess að börn eru að stunda íþróttir og rannsóknir hafa sýnt aftur og aftur að númer eitt tvö og þrjú er það ánægjan af íþróttinni“. Hann segir það vera ástæðuna fyrir því að börnin eru að stunda íþróttina og að áhersla á sigur og það að vera bestur og svoleiðis, það sé venjulega númer fjögur og fimm.

Hallur er á að mikilvægt sé að skapa umhverfi við íþróttaiðkun sem hámarkar ánægju. „Ef að barni finnst gaman í íþróttinni þá er það mun líklegra til að halda áfram þegar illa gengur og á móti blæs“, segir hann.

Hallur segir mikilvægt að hrósa fyrir það sem vel er gert og að leiðbeina á góðan hátt um það sem má betur fara. „Ekki skammir og það skiptir einnig miklu máli að það sé ekki mikill félagslegur samanburður heldur sé samanburður miðaður við hvernig fyrri frammistaða hefur verið“, segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×