Enski boltinn

Gunnar Jarl dæmir í beinni á Liverpool TV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Jarl Jónsson.
Gunnar Jarl Jónsson. Mynd/Stefán
Knattspyrnudómarinn Gunnar Jarl Jónsson verður með flautuna á mánudagskvöldið þegar Liverpool og Wolves mætast í U21-keppni ensku úrvalsdeildarinnar en þetta kemur fram á vefsíðunni fótbolti.net.

Liverpool TV, sem næst á Fjölvarpinu, mun sýna leikinn í beinni útsendingu en hann hefst klukkan 18.45 á mánudagskvöldið.

Liverool er í 3. sæti deildarinnar en Úlfarnir eru í 6. sæti. Það eru alls átta lið í deildinni en Tottenham og Manchester United eru fyrir ofan Liverpool sem hefur gert jafnefli í undanförnum tveimur leikjum sínum.

Liverpool gerði 3-3 jafntefli við West Ham í síðasta leik og þá léku með liðinu þekktir leikmenn eins og Raheem Sterling, Andre Wisdom, Jonjo Shelvey og Suso.

Frosti Viðar Gunnarsson, aðstoðardómari, mun einnig fara með Gunnari í ferðina til Englands en Frosti mun vera aðstoðardómari í leik hjá U21 árs liðum Bolton og Stoke.

Gunnar og Frosti munu einnig fylgjast með undirbúningi dómara í ensku úrvalsdeildinni en þessi ferð þeirra er hluti af samstarfi knattspyrnusambanda Íslands og Englands í dómaramálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×